Draumamark skilaði stigi gegn City

Michail Antonio, með Ruben Dias í bakinu, rétt áður en …
Michail Antonio, með Ruben Dias í bakinu, rétt áður en hann skorar markið ótrúlega. AFP

Michail Antonio skoraði sannkallað draumamark er West Ham gerði 1:1-jafntefli gegn Manchester City í Lundúnum í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Heimamenn komust yfir á 17. mínútu með ótrúlegu marki. Vladimir Coufal átti fyrirgjöf frá hægri og Antonio skoraði með viðstöðulausu skoti úr hjólhestaspyrnu, óverjandi fyrir Ederson í markinu.

Íslandsvinurinn Phil Foden kom inn sem varamaður í hálfleik og var snöggur að setja mark sitt á leikinn, jafnaði metin á 51. mínútu með góðu skoti innan teigs eftir sendingu frá Joao Cancelo. Fleiri urðu mörkin ekki og skildu liðin því jöfn.

West Ham er í 5. sæti með níu stig eftir sjö leiki en City er í 8. sætinu, einnig með níu stig en þó aðeins eftir sex leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert