Stórleikur Elínar dugði ekki til

Elín Jóna Þorsteinsdóttir og Hafdís Renötudóttir landsliðsmarkverðir.
Elín Jóna Þorsteinsdóttir og Hafdís Renötudóttir landsliðsmarkverðir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenski landsliðsmarkvörðurinn Elín Jóna Þorsteinsdóttir átti frábæran leik í marki Ringköbing þegar liðið þurfti að sætta sig við 24:26 tap á heimavelli gegn Silkeborg í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik kvenna í dag.

Elín Jóna varði 15 af þeim 39 skotum sem hún fékk á sig, sem gerir 38,5 prósent markvörslu.

Ringköbing eru eftir leikinn í 11. sæti af 14 í dönsku úrvalsdeildinni með 4 stig að loknum sjö umferðum. Silkeborg komst með sigrinum upp í 6. sæti með 7 stig.

Elín Jóna var á dögunum valin í úrvalslið fyrstu tveggja umferða í undankeppni EM á dögunum, þar sem hún átti til að mynda stórleik í marki Íslands í fræknum 23:21 sigri gegn Serbíu á Ásvöllum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert