Mótmæla byssulöggjöf með skotárásina að vopni

Lavern Spicer er ein þeirra frambjóðenda sem hafa notað skotárásina …
Lavern Spicer er ein þeirra frambjóðenda sem hafa notað skotárásina í Field's í Kaupmannahöfn sem rök gegn byssulöggjöf. mbl.is/Skjáskot

Þrír frambjóðendur Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum hafa nú notað skotárásina í verslunarmiðstöðinni Field's í Kaupmannahöfn sem rök gegn byssulöggjöf.

Þessir þrír frambjóðendur hafa allir tjáð sig á samfélagsmiðlinum Twitter í kjölfar skotárásarinnar. Allar færslur þeirra snúað að því að skotárásin í Danmörku, þar sem byssur eru bannaðar, sé sönnun þess efnis að byssulöggjöf í Bandaríkjunum eigi ekki eftir að draga úr tíðum skotárásum þar í landi.

Bjóða sig öll fram fyrir Repúblikanaflokkinn

Lavern Spicer sem býður sig fram fyrir hönd Repúblikanaflokksins í Flórída-ríki fyrir þingkosningarnar í Bandaríkjunum 2024 tjáði sig til dæmis í færslu sinni á Twitter. „Skotárás í Kaupmannahöfn í Danmörku þar sem byssur eru bannaðar? Vá, ég get ekki beðið eftir því að vinstrið reyni að útskýra hvernig það gerðist.“

Þá segir Irene Armendariz-Jackson sem býður sig fram fyrir repúblikana í Texas-ríki „skotárás þar sem er nánast ómögulegt að nálgast byssu fyrir almenning afsannar öll sjónarmið vinstrisins um byssur.“

Willie J. Montague sem býður sig einnig fram fyrir repúblikana í Flórída segist biðja fyrir Kaupmannahöfn og vinstri sinnuðum flokkum. „Ég bið fyrir fólkinu í Kaupmannahöfn. Ég bið einnig svo að vinstrið vakni og sjái að ekki er komið í veg fyrir skotárásir með byssulöggjöf,“ segir í færslu Montague. 

Þess má þó geta að um er að ræða fyrstu skotárásina í Danmörku í mörg ár en í Bandaríkjunum er skotárás daglegt brauð. Á hverjum degi eru 321 manns skotin í Bandaríkjunum samkvæmt tölfræði frá 2015 til 2019.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert