Hefur ekki áhyggjur af lokun apóteka

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.
Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur ekki áhyggjur af því að apótek á landsbyggðinni muni loka í sumar. Morgunblaðið greindi frá því í gær að Andrés Magnússon, framkvæmdarstjóri Samtaka verslunar og þjónustu, hefði áhyggjur af því að nýútskrifaðir lyfjafræðingar fái ekki útgefin starfsleyfi fyrr en í júli og geti þar með ekki hafið störf í apótekum fyrr en þá.

Í skriflegu svari til mbl.is segir heilbrigðisráðuneytið að sambærilegt mál hafi komið upp fyrir tveimur árum og hafi háskólinn þá gefið út „snemmstaðfestingu“ á brautskráningu svo að útskriftarnemar gætu hafið störf fyrr.

Heilbrigðisráðuneytið hefur verið í samskiptum við háskólann um að aðstoða nemendur sína með snemmstaðfestingu á brautskráningu í ár.

Landlæknir sér um veitingu starfsleyfa

Embætti landlæknis sér um veitingu starfsleyfa til lyfjafræðinga og hefur Heilbrigðisráðuneytið verið í samtali við landlæknisembættið um að veita starfsleyfi eins hratt og mögulegt er þegar staðfesting á brautskráningu berst.

Venjulegt er að starsfsleyfi til nýrra lyfjafræðinga sé ekki veitt fyrr en við formlega útskrift. Brautskráning úr Háskóla Íslands er 15. júní, og tekur það að jafnaði tvær til þrjár vikur fyrir starfsleyfið að vera samþykkt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert