Úrskurðaður í fjögurra ára keppnisbann

Pawel Cibicki í leik með sænska U21-árs landsliðinu á sínum …
Pawel Cibicki í leik með sænska U21-árs landsliðinu á sínum tíma. AFP

Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, hefur úrskurðað sænska knattspyrnumanninn Pawel Cibicki í fjögurra ára keppnisbann fyrir veðmálasvindl.

Í september á síðasta ári dæmdi sænska knattspyrnusambandið Cibicki í fjögurra ára keppnisbann en náði það einungis yfir kappleiki í Svíþjóð.

Cibicki, sem er á mála hjá Pogon Szczecin í Póllandi, hefur því getað spilað fótbolta þar í landi, eða allt þar til nú að FIFA ákvað að fylgja fordæmi sænska knattspyrnusambandsins. Nær bannið því nú til allra aðildarlanda FIFA.

Málið lýt­ur að því að Cibicki er gefið að sök að hafa fengið vilj­andi gult spjald í leik með Elfs­borg gegn Kalm­ar í sænsku úr­vals­deild­inni árið 2019 og fengið greitt fyr­ir. Þá lék hann sem lánsmaður frá enska fé­lag­inu Leeds United.

Upp­hæðin sem Cibicki fékk greidda, um 4,3 millj­ón­ir ís­lenskra króna, sagði hann sjálf­ur að hafi ein­fald­lega verið lán.

Skömmu áður en leik­ur Kalm­ars og Elfs­borg hófst voru 27 nýir veðmála­reikn­ing­ar stofnaðir og áttu þeir það all­ir sam­eig­in­legt að veðja á að Cibicki myndi fá gult spjald í leikn­um.

Cibicki var í desember síðastliðnum dæmdur í tveggja ára skilorðsbundið fangelsi í Svíþjóð vegna málsins.

Hann neitar alfarið sök, líkt og aðrir tveir aðilar málsins, og hafa allir þrír áfrýjað dómum sínum til Íþróttaráðs Svíþjóðar. Samkvæmt FIFA er hægt að breyta refsingum þeirra ef sænska íþróttasambandið kemst að annarri niðurstöðu en sænska knattspyrnusambandið komst að.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert