Fjórtán tíma eltingaleikur á Austurlandi

Ólafur og María ánægð á svip eftir langan eltingaleik við …
Ólafur og María ánægð á svip eftir langan eltingaleik við tarfinn. Ljósmynd/Aðsend

Veiði á hreindýrstörfum hófst sl. fimmtudag. Meðal þeirra sem lögðu leið sína austur um helgina voru hjónin Ólafur Vigfússon og María Anna Clausen. Veiði á hreindýrskúm hefst 1. ágúst nk. og stendur til 20. september. Veiði á törfum lýkur fimm dögum fyrr.

Í samtali við blaðamann var Ólafur hinn sáttasti með þennan fyrsta túr tímabilsins en þau hjónin skutu tvo tarfa.

„Við vorum heppin að ná tveimur törfum á svæði 2,“ segir Ólafur en Austurlandinu er skipt niður í níu mismunandi veiðisvæði fyrir hreindýraveiðar. Spurður hvort það sé rétt metið hjá blaðamanni að þau hjónin séu reynsluboltar í bransanum segir Ólafur léttur: „Jú, rétt metið hjá þér,“ en þau hjónin eiga og reka Veiðihornið, eina stærstu veiðibúð landsins. Ólafur segir ferðina hafa tekist vel, en þó hafi þetta tekið sinn tíma og mikið þolinmæðisverk að elta dýrin uppi.

Fjórtán tíma eltingaleikur

Þau hjónin lögðu af stað klukkan átta um morgun og voru ekki komin niður til byggða fyrr en að verða tíu um kvöldið. Það er mat Ólafs að sökum mikilla hlýinda á Austurlandi síðustu daga og vikur séu dýrin hærra uppi í fjöllunum en venjulega. Því þurfi að hafa mikið fyrir því að elta þau uppi og finna. „Svo loks þegar við fundum dýrin þá voru þau mjög kvik og gjörn á að hlaupa á brott, þetta var því mikið þolinmæðisverk.“ Úr verður því hálfgerður eltingaleikur en ekkert ógurlegur æsingur þó.

„Maður er náttúrlega svona í fjarska til að styggja ekki dýrin, en tarfarnir eru gjarnan í nokkuð stórum hópum,“ segir Ólafur. Þau hjónin fylgdu því törfunum lengi vel til þess að komast í gott skotfæri.

„Það verður að tryggja að maður fái gott færi til þess að ná að fella dýrið.“ Að endingu skutu hjónin tvo tarfa og því ánægð með afrakstur ferðarinnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert