ÍBV mætir Val í úrslitaleiknum

Eyjakonan Birna Berg Haraldsdóttir brýst í gegnum vörn Selfyssinga í …
Eyjakonan Birna Berg Haraldsdóttir brýst í gegnum vörn Selfyssinga í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

ÍBV mætir Val í úrslitum bikarkeppni kvenna í handbolta eftir sigur á Selfossi, 29:26, í seinni undanúrslitaleik kvöldsins í Laugardalshöllinni.

Leikurinn var jafn fyrstu tíu mínúturnar en þá kom góður kafli frá ÍBV þar sem liðið komst í 7:4. Marta Wawrzykowska varði mjög vel sem gerði Selfyssingum erfitt fyrir að halda í við ÍBV. Munurinn hélst í kringum fjögur mörk í dágóðan tíma en það virtist eins og ÍBV ætti alltaf smávegis inni þegar Selfyssingar gerðu sig líklega til að minnka muninn. Undir lok hálfleiksins fór sóknarleikur Selfyssinga þó að hiksta all svakalega en sem betur fer fyrir þær náðu Eyjakonur ekki að nýta sé það eins vel og þær hefðu viljað. Staðan þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik var 16:11, en eins og áður kom fram hefði munurinn getað verið meiri.

ÍBV gekk á lagið í seinni hálfleik og á fyrstu sex mínútunum var munurinn orðinn níu mörk. Eftir það var aldrei spurning hvort liðið færi með sigur af hólmi en Selfyssingum tókst þó að klóra í bakkann á lokamínútum leiksins með góðri spilamennsku. Að lokum var það þó ÍBV sem fór með sigur af hólmi, þrátt fyrir hetjulega baráttu Selfoss, og liðið mætir því Val í úrslitaleiknum á laugardag en Valur vann Hauka fyrr í kvöld.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst í liði ÍBV með sjö mörk og þá varði Marta Wawrzykowska 14 skot í markinu. Hjá Selfossi var Katla María Magnúsdóttir markahæst með níu mörk og Cornelia Hermanson varði 12 skot í markinu.

ÍBV 29:26 Selfoss opna loka
60. mín. Ingibjörg Olsen (ÍBV) skoraði mark Þarna kom mark sem drap þá veiku von sem Selfyssingar höfðu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert