Skýrslan afhjúpar kvenhatur, rasisma og fordóma

Casey komst að þeirri niðurstöðu að fjöldi brota hefðu verið …
Casey komst að þeirri niðurstöðu að fjöldi brota hefðu verið innan deildarinnar í skjóli rótgróins kúltúrs sem ali á fordómum. AFP

Kynþáttafordómar, kvenhatur og ýmis konar ofbeldi gegn hinsegin fólki og minnihlutahópum þrífst innan Lögreglunnar í Lundúnum, samkvæmt svartri skýrslu um deildina. Þá er ekki útilokað að nauðgarar og morðingjar séu ráðnir til starfa.

Skýrslan, sem unnin var af Luise Casey, óháðum endurskoðanda á vegum breskra stjórnvalda í kjölfar þess að lögreglumaðurinn Wayne Couzens rændi, nauðgaði og myrti Söruh Everard fyrir tveimur árum.

Málið vakti upp hörð viðbrögð í Bretlandi og breytinga krafist, en síðan þá hefur annar lögreglumaður deildarinnar, David Carric, verið dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir tugi nauðgana og önnur kynferðisbrot yfir tveggja áratuga skeið.

Málið vakti hörð viðbrögð í Bretlandi og breytinga var krafist.
Málið vakti hörð viðbrögð í Bretlandi og breytinga var krafist. DANIEL LEAL-OLIVAS

Casey komst að þeirri niðurstöðu að fjöldi brota hefðu verið innan deildarinnar í skjóli rótgróins kúltúrs sem ali á fordómum.

Þar hafi kvenkyns og samkynhneigðir lögreglumenn og lögreglumenn út hópi minnihlutahópa sætt reglulegum fordómum, mismunun og einelti. Ekki hafi verið tekið nógu alvarlega á ofbeldi gegn konum og stúlkum.

Kvaðst hún ekki geta neitað því að enn þrifust lögreglumenn á borð við Couzens og Carric innan deildarinnar.

„Það er starf lögreglunnar að halda almenningi öruggum,“ sagði Casey. „Of margir Lundúnabúar hafa misst trúna á að lögreglan geri það.“

Sunak segir traustið skaddað

Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, hefur sagt stöðuna innan lögreglunnar „sláandi“ og „óásættanlega“. Traust fólks til lögreglunnar í Lundúnum sé verulega skaddað.

Spurður af BBC hvort hann gæti sagt dætrum sínum að treysta lögreglunni með hreinni samvisku svaraði Sunak: „Svarið við þeirri spurningu þarf að vera já, en traust til lögreglunnar hefur verið skaddað verulega.“

Inntur eftir hvort það vantraust ætti við um hann einnig svaraði Sunak að „traust allra“ hefði bjagast. Sunak hefur sagt í samtali við fréttastofu AFP að það þyrfti breytingu á bæði kúltur lögreglunnar og einnig forystu hennar.

Risi Sunak, forsætisráðherra Bretlands.
Risi Sunak, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Styður hann þó við bakið á Mark Rowley, sem skipaður var lögreglustjóri eftir að Cressida Dick sagði af sér í apríl á síðasta ári vegna málsins.

Rowley sagði skýrsluna hafa vakið hjá sér óhug og sagðist ætla að taka á vandamálinu með afgerandi hætti.

„Við stöndum í stríðu við raunverulegt vandamál hérna. Kvenhatur, hommahatur og rasismi þrífst innan stofnunarinnar og við ætlum okkur að rífa það upp með rótum,“ sagði Rowley við Sky News í morgun.

Mark Rowley tók við deildinni í september 2022.
Mark Rowley tók við deildinni í september 2022. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert