Besti árangur Skota í 32 ár

Ryan Fraser skýtur að marki Tékka í leiknum í kvöld.
Ryan Fraser skýtur að marki Tékka í leiknum í kvöld. AFP

Skoska karlalandsliðið í knattspyrnu er á góðri leið með að tryggja sér sæti í A-deild Þjóðadeildar UEFA eftir sigur á Tékkum í kvöld, 1:0, en frammistaða liðsins að undanförnu er sú besta í 32 ár.

Með þessum úrslitum hafa Skotar unnið sex leiki og gert tvö jafntefli í síðustu átta leikjum en þeir voru síðast taplausir í þetta langan tíma árið 1988.

Ryan Fraser, leikmaður Newcastle, skoraði sigurmarkið gegn Tékkum strax á 6. mínútu eftir sendingu frá Lyndon Dykes, leikmanni QPR. 

Skotar voru með öflugt landslið á síðustu áratugum 20. aldarinnar og komust í lokakeppni HM í fimm skipti í röð, frá 1974 til 1990, en hafa ekki náð þangað frá árinu 1998. Þá voru þeir í lokakeppni EM 1992 og 1996 en aldrei frá þeim tíma.

Skotar sjá nú fram á betri tíð með blóm í haga. Þeir eru með 10 stig í 2. riðli B-deildar en Tékkar eru með 6 stig, Ísraela 5 og Slóvakar eru með eitt stig á botninum.

Þá eiga þeir fyrir höndum í næsta mánuði hreinan úrslitaleik gegn Serbum í EM-umspilinu og gætu þar með komist í lokakeppni EM á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert