Tvö lærdómsrík ár í faraldrinum

Thor Aspelund, prófessor í líftölufræði við Háskóla Íslands.
Thor Aspelund, prófessor í líftölufræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði, segir tölur um fjölda spítalainnlagna af völdum kórónuveirunnar hér á landi mögulega gefa til kynna að Íslendingar séu að taka betur á faraldrinum en víða annars staðar. Telur hann að þakka megi góðu verklagi heilbrigðiskerfisins og nefnir til að mynda Covid-göngudeildina og bólusetningarstöðu þjóðarinnar.

Spurður hvort að innlagnartíðni fari nú lækkandi sökum þess að alvarleg veikindi eru vægari meðal barna, segir Thor að innlagnartíðni hafi almennt farið lækkandi „eftir öllum aldri“ frá því í desember.

„Upplýsingarnar sem komu að utan voru með mun hærri tölur. Við lærum kannski að á Íslandi erum við að gera þetta vel. Við erum kannski að meðhöndla þetta betur. Það er frábært að við þurfum ekki að leggja fólk inn,“ segir Thor og bætir við að mikilvægt sé að vera ekki dómharður þó svo að spár Landspítala um spítalainnlagnir hafi ekki gengið eftir. Sé það frekar fagnaðarefni og merki um að hér sé staðið vel að málum.

Íslendingar hafi lært margt á þeim tveimur árum sem faraldurinn hefur geisað hér á landi en sá tími er í raun mjög stuttur þegar kemur að sjúkdómdómssögu.

Vill skerpa á sviðsmyndum

Thor segir upplýsingagjöf er varðar spá um smittíðni og innlagnarfjölda mikilvægan lið í því að skýra forsendur fyrir samkomutakmörkunum fyrir almenningi í landinu. Er því ráðlegt að skerpa á þeim sviðsmyndum sem eru uppi að hverju sinni og uppfæra þær reglulega.

Gera verður þó grein fyrir því að þær geti breyst mjög hratt. Þannig séu spár er varða fjölda innlagna búnar að taka miklum breytingum á síðustu vikum og dögum. Sýna mætti meira af þeim upplýsingum til að útskýra hvernig spárnar eru byggðar upp. Svo eru spár uppfærðar þegar nýjar upplýsingar berast. Það er eðlilegt.

„Svo er auðvitað alltaf þessi umræða, á að vera með spár og svona.“

Hvað mælir gegn því?

„Ekkert,“ segir hann og bætir við að vísindamenn séu nú orðnir mun varkárari en í upphafi faraldurs, enda gangur faraldursins í samhengi við sóttvarnir allt annar núna. Það hjálpar að geta áttað sig á leitni í smitum í tvær til fjórar vikur. Því miður er fyrirsjáanleikinn ekki meiri.

Nýgengi meðal ungmenna komi fram

Þá veltir hann því jafnframt upp að núna sé ráðlegt sé að brjóta gögnin enn frekar niður og sýna nýgengi smita eftir aldurshópum og þá sérstaklega meðal barna á aldrinum 6-12 ára til að skýra betur stöðuna í samfélaginu, þar sem smittíðni meðal þeirra sé nú óvenju há.

„Það er erfitt í tölfræðinni að brjóta gögnin of mikið niður því þá getur skapast mikil óvissa með spár. En nú er þetta öðruvísi því við erum með þennan mikla fjölda smita. Upplýsingarnar á covid.is gefa góða mynd. En það væri ákjósanlegt að vera með breiðan hóp fólks til að rýna í gögn og birta aðgengilegar niðurstöður til upplýsingar fyrir almenning um ýmis atriði sem eru efst á baugi hverju sinni. Og ég endurtek, til dæmis núna með sérstaka áherslu á hegðun faraldursins meðal barna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert