„Alveg fínt samstarf okkar á milli“

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Kristján Þórður Snæbjörnsson, formaður …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Kristján Þórður Snæbjörnsson, formaður Rafiðnaðarsam­bands Íslands og for­seti ASÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristján Þórður Snæ­bjarn­ar­son, formaður Rafiðnaðarsam­bands Íslands og for­seti ASÍ, segir í samtali við mbl.is að samflot iðn- og tæknigreina sé samstiga VR í kjaraviðræðum þrátt fyrir að ásýndin virðist vera önnur. 

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur lýst vonbrigðum sínum vegna kjarasamnings Starfsgreinasambandsins (SGS) og Samtaka atvinnulífsins (SA) og sagt að hann flæki stöðuna í kjaraviðræðum. 

Kristján hefur aftur á móti sagt að samningurinn styrki stöðuna við samningaborðið. 

Tíminn orðinn mjög knappur

VR tilkynnti á laugardag að stéttarfélagið myndi taka höndum saman við samflot iðn- og tæknigreina ásamt Landssambandi íslenzkra verzlunarmanna. Um kvöldið skrifuðu SGS og SA síðan undir kjarasamning.

Er enn gott samstarf á milli samflots iðn- og tæknigreina og VR?

„Já, það er alveg fínt samstarf okkar á milli. Það er alveg klárt þó að ásýndin sé kannski önnur vegna samninganna.“

Kristján segir að unnið sé út frá því að gera skammtímasamning líkt og SGS gerði en þeirra samningur gildir til 31. janúar 2024.

„Það er á borðinu eins og staðan er í dag að reyna það, en hins vegar er það þannig að tíminn til þess að gera slíkt er orðinn mjög knappur,“ segir hann og bætir við að því sé áhersla lögð á að komast áfram með viðræður til þess að ná niðurstöðu. 

Gengur ekkert ennþá

Kristján segir að samninganefnd iðn- og tæknigreina sé ágætlega stemmd. 

„Það hins vegar gengur ekkert ennþá,“ segir hann og bætir við að ríkissáttasemjari hafi enn ekki boðað til formlegs fundar.

„Við erum að vinna sitt hvorum megin við borðið, sitt í hvoru lagi, að leita leiða.“

Kristján segir að lokum að hann vonist til að ríkissáttasemjari boði til fundar sem fyrst. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert