Haukar gáfu eftir í síðari hálfleik

Helena Sverrisdóttir sækir að leikmönnum Tarbes í Frakklandi.
Helena Sverrisdóttir sækir að leikmönnum Tarbes í Frakklandi. Ljósmynd/FIBA

Helena Sverrisdóttir skoraði 15 stig fyrir Hauka þegar liðið tapaði gegn Tarbes í L-riðli Evrópubikarnum í körfuknattleik í Frakklandi í kvöld.

Leiknum lauk með 66:53-sigri Tarbes en ásamt því að vera stigahæst í liði Hauka tók Helana sex fráköst og gaf þrjár stoðsendingar.

Hafnfirðingar voru öflugir í fyrri hálfleik og var staðan 31:28, Tarbes í vil, í hálfleik. Haukar byrjuðu hins vegar seinni hálfleikinn illa og skoruðu einungis 12 stig gegn 23 stigum Tarbes í þriðja leikhluta og Hafnfirðingum tókst ekki að koma til baka eftir það.

Haiden Palmer átti mjög góðan leik fyrir Hauka, skoraði 12 stig og tók 10 fráköst. Þá skoraði Lovísa Henningsdóttir 8 stig fyrir Hauka og Tinna Alexandersdóttir 7 stig.

Haukar eru með 2 stig í fjórða og neðsta sæti riðilsins, líkt og Brno, en Villeneuve og Tarbes eru í efstu sætunum með 4 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert