„Þetta er gríðarlega svekkjandi og við gefum þeim forskot á fyrstu mínútunum sem er náttúrulega ekki nógu gott. Við ætluðum okkur sex stig og það er ekki að takast og það er bara næsti leikur,“ sagði Jóhann Berg í viðtali við Stefán Árna Pálsson strax að leik loknum í Lúxemborg í kvöld.
„Við gerum of mörg mistök í dag, við sköpuðum okkur líka færi sem við þurfum að klára og við vitum það manna best.“
Heimamenn komust yfir strax í upphafi leiks eftir að dæmd var vítaspyrna. Dómari leiksins fór í VAR-skjáinn og stóð við sinn dóm.
„Ég sá þetta ekki nógu vel, ég þarf að sjá þetta aftur. Þeir auðvitað skoðuðu þetta nokkuð vel og gefa vítaspyrnuna og þetta er klaufalegt hjá okkur. Einn bolti innfyrir og við eigum að díla við svoleiðis,“ sagði Jóhann Berg en Hörður Björgvin Magnússon var hikandi í sínum varnarleik þegar vítaspyrnan var dæmd og Rúnar Alex Rúnarsson í markinu sömuleiðis.
„Það er auðvitað gríðarlega svekkjandi að gefa þeim forskot því mér fannst við fínir úti á velli. Það voru of mörg mistök á báðum endum, við gefum þeim mörk og erum ekki að klára færin okkar.“
„Er ekkert að spá í því núna“
Varnarleikur Íslands í dag var ósannfærandi en batamerki höfðu sést á honum eftir fyrstu leiki liðsins undir stjórn Åge Hareide.
„Við fáum á okkur þrjú mörk og það er bara ekki nógu gott, við vitum það. Við getum ekki gert svona mörg mistök, í landsliðsfótbolta er það ekki hægt. Við þurfum að læra af þessu og við þurfum að gera það fljótt því næsti leikur er á mánudaginn.“
Jóhann Berg sagðist ekki spá í stöðu Íslands í riðlinum. Liðið er með þrjú stig eftir fimm leiki og von um sæti á EM í Þýskalandi á næsta ári svo gott sem úr sögunni.
„Ég veit það ekki og er ekki að spá í því núna. Ég er bara að spá í því hversu svekkjandi var að tapa þessum leik í kvöld. Við verðum að reyna að gleyma þessum leik eins fljótt og hægt er og einbeita okkur að heimaleiknum á mánudaginn. Byggja upp góða stemmningu og vinna Bosníu, það er ekkert annað í boði og það þýðir ekkert að svekkja sig eitthvað mikið lengur á þessu.“