LeBron frábær í endurkomu Lakers

LeBron James treður með tilþrifum í nótt. Hann fór fyrir …
LeBron James treður með tilþrifum í nótt. Hann fór fyrir sínum mönnum í frábærri endurkomu í Portland. AFP/Steph Chambers

Sjö leikir fóru fram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Los Angeles Lakers með LeBron James í fararbroddi vann upp 25 stiga forskot Portland Trail Blazers og fór að lokum með góðan útisigur, 121:112.

James var stigahæstur í liði Lakers með 37 stig en hann tók einnig 11 fráköst. Thomas Bryant var einnig atkvæðamikill með 31 stig og 14 fráköst. Stigahæstur í liði Portland var Anfernee Simons með 31 stig. Damian Lillard skoraði þá 24 stig, gaf tíu stoðsendingar og tók sex fráköst í liði heimamanna.

Með sigrinum fer Lakers upp fyrir Portland í 12. sæti Vestur-deildarinnar með 22 sigra í 47 leikjum. Portland er með 21 sigur í 46 leikjum.

Brooklyn Nets kom til baka eftir að hafa verið 12 stigum undir í hálfleik og vann að lokum sterkan útisigur á Golden State Warriors, 120:116.

Kyrie Irving var maður leiksins með 38 stig, níu stoðsendingar og sjö fráköst. Nic Claxton skoraði 24 stig og bætti persónulegt stigamet. Þá tók hann að auki 15 fráköst fyrir Brooklyn. Steph Curry skoraði 26 stig, gaf sjö stoðsendingar og tók sex fráköst í liði heimamanna.

Með sigrinum jafnar Brooklyn lið Milwaukee Bucks í 3.-4. sæti Austur-deildarinnar með 29 sigra í 46 leikjum. Golden State situr í 10.-11. sæti með 23 sigra í 47 leikjum.

Öll úrslit næturinnar:

Portland - LA Lakers 112:121
Golden State - Brooklyn 116:120
Dallas - LA Clippers 98:112
Miami - New Orleans 100:96
Toronto - New York 125:116
Denver - Oklahoma 99:101
Phoenix - Memphis 112:110

Kyrie Irving keyrir á körfuna í nótt. Steph Curry reynir …
Kyrie Irving keyrir á körfuna í nótt. Steph Curry reynir að stöðva hann. AFP/Kavin Mistry
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert