Lággjaldaflugfélagið Play, sem kynnt var til leiks í nóvember árið 2019, er það vel fjármagnað að það gæti lifað af í tvö ár í viðbót án þess að hefja farþegaflug. Þetta sagði Birgir Jónsson, forstjóri félagsins, í samtali við Víglínuna . Nýverið réðst félagið í 50 milljóna dala fjármögnun, eða sem nemur um 6,2 milljörðum króna.

Í viðtalinu fór hann yfir framtíðaráform Play, en hann segir að stefnt sé að hefja sölu á farmiðum seinni part þessa mánaðar og stefnt sé að fyrstu áætlunarferð síðari hluta júní.

„Þessir áfangastaðir sem við erum að fara á eru þessir hefðbundnu íslensku áfangastaðir. Við förum í stærstu borgir í Evrópu. Alicante og Tenerife og þessa staði sem Íslendingar vilja fara á og ferðamenn koma til Íslands frá," sagði Birgir í Víglínunni.

Hann sagði að einnig væri á áætlun að vera með ferðir til London, Kaupmannahafnar og Parísar. Bandaríkjaflug gæti að sama skapi mögulega komið inn í myndina undir lok árs til þess að búa til tengiflugsmöguleika við Evrópu.

Í viðtalinu vísar Birgir að sama skapi til föðurhúsanna ásökunum um félagsleg undirboð, gerviverktöku og erlendar áhafnaleigur.

„Við erum íslenskt flugfélag með íslenskt flugrekstrarfélagi. Þetta eru íslenskir fjárfestar að stórum hluta lífeyrissjóðir og aðrir slíkir fjárfestar. Við erum á leiðinni á markað. Þannig að það verður ekkert í okkar rekstri  sem stenst ekki skoðun eða er eitthvað óeðlilegt. Við erum með góða samninga við íslensk stéttarfélög og munum dansa eftir þeim leikreglum sem tíðkast á íslenskum atvinnumarkaði. Annað væri óeðlilegt. Allt tal um gerviverktöku eða félagsleg undirboð eða áhafnarleigur frá lágkostnaðar löndum eru kjaftasögur og misskilningur. Ég held að þetta muni koma í ljós á rétta tímanum," sagði forstjórinn.