Andlát: Ólafur Mixa

Ólafur Franz Mixa.
Ólafur Franz Mixa. Ljósmynd/Aðsend

Dr. Ólafur Franz Mixa læknir lést 8. janúar sl., 82 ára að aldri.

Ólafur fæddist 16. október 1939 í Graz í Austurríki. Foreldrar hans voru dr. Franz Mixa, tónskáld og prófessor, og Katrín Ólafsdóttir kennari. Ólafur bjó lengstum í Reykjavík, varð stúdent frá MR árið 1959 og stundaði nám við Háskólann í München og síðan læknadeild Háskóla Íslands. Sérnámi í heimilislækningum lauk hann í Calgary í Kanada 1971.

Ólafur starfaði fyrst sem læknir í Kanada og síðan sem heimilislæknir í Reykjavík frá árinu 1972, með þeim fyrstu til að fá slíkt leyfi hér á landi og tók fljótlega sæti í nefnd læknadeildar HÍ til að undirbúa kennslu í heimilislækningum. Var yfirlæknir heilsugæslunnar í Álftamýri árin 1986-1994 og heilsugæslunnar í Lágmúla 1997-1999. Árin 1999-2000 var hann læknir við Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði. Ólafur var yfirlæknir á Skjóli um árabil auk þess að vera trúnaðarlæknir þýska og kanadíska sendiráðsins. Hann var stundakennari í Háskóla Íslands í mörg ár og aðjúnkt í heimilislækningum 1998-1999.

Ólafur átti sæti í stjórn Rauða kross Íslands og formaður þar um skeið. Stofnandi og stjórnarmaður í Hugbúnaðarfélagi Íslands frá 1990 og var ráðgjafi við hönnun tölvusjúkraskrár.

Ólafur sinnti félagsstörfum fyrir lækna hér á landi og erlendis, átti sæti í samninganefnd Félags heimilislækna og meðal stofnenda Félags íslenskra heimilislækna árið 1978.

Ólafur fékk snemma áhuga á leiklist og lék nokkur hlutverk í Þjóðleikhúsinu, hjá Leikfélagi Hafnarfjarðar, Herranótt MR og leikfélaginu Grímu. Þá stóð hann að útgáfu og sat í ritstjórn tímaritsins Leikhúsmála. Hann ritaði fjölda greina í læknatímarit og blöð um heilbrigðismál og almenn þjóðmál, m.a. um árabil í Morgunblaðið. Ólafur kom sér upp myndarlegu uglusafni á stofu sinni, sem hann síðar gaf Læknavaktinni.

Fyrri maki Ólafs var Ásthildur Gísladóttir, f. 1943, d. 2008, og börn þerra eru Már Wolfgang, f. 1965, og Halla Guðrún, f. 1968. Seinni maki var Kristín Þorsteinsdóttir, f. 1943, d. 2017, og eignaðist hann með henni Katrínu, f. 1980. Barnabörnin eru orðin sex talsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert