Andri verður annar aðalþjálfara Þróttar

Andri Steinn Birgisson verður aðalþjálfari Þróttar ásamt Brynjari Gestssyni.
Andri Steinn Birgisson verður aðalþjálfari Þróttar ásamt Brynjari Gestssyni. Ljósmynd/Þróttur Vogum

Knattspyrnudeild Þróttar úr Vogum hefur komist að samkomulagi við Andra Stein Birgisson um að hann taki við sem annar af aðalþjálfurum karlaliðsins og starfi þannig við hlið Brynjars Gestssonar.

Andri Steinn hefur áður þjálfað Þrótt. Það gerði hann tímabilið 2015 og stýrði þá liðinu upp um deild í fyrsta sinn í sögu félagsins þegar liðið hafnaði í öðru sæti 4. deildar.

Undanfarin ár hefur hann verið í þjálfarateymi karlaliðs Kórdrengja.

„Ég þekki auðvitað vel til hjá Þrótti og þetta var auðveld ákvörðun að taka þegar Binni hafði samband. Þarna hóf ég minn þjálfaraferil á sínum tíma og leið ákaflega vel.

Við stefnum á toppbaráttu. Mikilvægasta vinnan verður að byggja upp gott lið sem fær að vaxa og dafna saman til næstu ára.

Þróttur skiptir miklu máli fyrir samfélagið í Vogum og við þurfum að fá bæjarbúa með okkur í verkefnið. Við ætlum okkur að standa okkur fyrir Voga,“  sagði Andri Steinn í tilkynningu frá knattspyrnudeild Þróttar.

Á leikmannaferli sínum kom hann víða við og lék alls 174 leiki fyrir Fram, Víking úr Reykjavík, Aftureldingu, Grindavík, Keflavík, Leikni úr Reykjavík, Hauka og Fjölni í efstu tveimur deildunum hér á landi. Í þeim skoraði hann 33 mörk.

„Þetta er gríðarlegur styrkur fyrir félagið. Hann þekkir vel til hjá okkur og hefur verið í góðu sambandi alla tíð frá því hann þjálfaði liðið. Andri hefur verið stór partur í árangri Kórdrengja síðustu ár,” sagði Marteinn Ægisson, framkvæmdastjóri Þróttar, í tilkynningunni.

Þróttur leikur í 2. deild á komandi tímabili eftir að hafa fallið úr 1. deild, á því síðasta en þá lék félagið þar í fyrsta skipti í sögunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert