Halldór Brynjar Halldórsson flutti matsmálið fyrir hönd Lyfja og heilsu gegn Samkeppniseftirlitinu og ríkinu og hafði hann ýmislegt út á neytendakönnunina að setja. Framkvæmdin hefði verið sú að spyrlar komu sér fyrir í báðum apótekum Mosfellsbæjar, sem standa svo til andspænis hvort öðru, og spurðu hvar viðskiptavinir myndu kaupa lyf ef þessa apóteks nyti ekki við.

„Íslendingar kaupa lyf eins og allt annað, þeir koma við á leiðinni í eða úr vinnu. Ég get alveg sagt að ef ég væri staddur í Krónunni úti á Granda og væri spurður sambærilegrar spurningar þá myndi ég benda á Bónus hinum megin við götuna,“ sagði Halldór Brynjar. Könnunin hefði því aldrei getað mælt staðgöngu, ekki hvort Apótekarinn og Apótek Mos teldust nánir keppinautar og því ekki hvort um sérstakan markað væri að ræða.

„Með sömu aðferð mætti komast að því að matvöruverslanir á Granda teldust sérstakur markaður og þá er stutt í að engir samrunar fái grænt ljós,“ sagði Halldór Brynjar. Um ástæðu þess að matsbeiðnin beindist ekki að fleiri þáttum en neytendakönnuninni sagði hann að þar væri á ferð eina sérfræðigagnið í málinu sem þyrfti að hnekkja með slíku mati.

Hvað málshöfðunarfrestinn varðaði þá benti Halldór Brynjar á að umbjóðandi sinn hefði viljað höfða ógildingarmál. Seljandinn hefði aftur á móti ekki haft áhuga á slíku stappi og ákveðið að selja félagið annað. Fyrir lægju dómafordæmi sem kvæðu á um að báðir aðilar samrunamáls þyrftu að eiga aðild að slíku ógildingarmáli fyrir dómi og slíkt væri ekki hægt ef annar þeirra vildi falla frá viðskiptunum.

„Það er ekki tilviljun að fá samrunamál hafa ratað fyrir dóm enda eru þetta yfirleitt mál sem krefjast skjótrar niðurstöðu. Ég fullyrði það að enginn gerir samninga þannig úr garði að ekki sé unnt að falla frá þeim ef SKE ógildir samruna,“ sagði Halldór Brynjar.

Eftirlitið sem hefur skoðun á öllu

Í ræðu sinni sagði Halldór Brynjar að ástæðan fyrir því að matsbeiðnin beindist aðeins að neytendakönnuninni væri sú að það væri eina sérfræðigagnið í málinu sem hnekkja þyrfti með slíku mati. Yrði niðurstaða matsmanns sú að rétt hefði verið staðið að könnuninni eða að tjónið væri ekkert þá lægi ljóst fyrir að ekki yrði af neinu bótamáli. „Að mati matsbeiðanda þá er ábyrgðarhluti af SKE, sem er stjórnvald og ríkisstofnun, með mikil völd og hikar ekki við að hafa skoðanir á öllum hlutum, nú síðast á sjálfu tjáningarfrelsinu, að standa því í vegi að verk þess séu svo mikið sem skoðuð af óvilhöllum matsmanni,“ sagði Halldór Brynjar í niðurlagi ræðu sinnar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .