Ekkert eðlilega löng þrautarganga

Einar Ingi Hrafnsson, fyrirliði Mosfellinga.
Einar Ingi Hrafnsson, fyrirliði Mosfellinga. mbl.is/Óttar Geirsson

„Karakterinn í liðinu var stórkostlegur,“ sagði Einar Ingi Hrafnsson, fyrirliði Aftureldingar, í samtali við mbl.is eftir 28:27-sigur liðsins gegn Haukum í úrslitum bikarkeppni karla í handknattleik í Laugardalshöll í dag.

„Þetta var ógeðslega erfið fæðing hjá okkur. Við vorum bæði óheppnir og vanstilltir þarna í byrjun og við náum ekki að snúa leiknum fyrr en seint í síðari hálfleik.

Við skoruðum samt mörk allan leikinn en það er kannski vel við hæfi að það hafi verið bæði varnarleikurinn og markvarslan sem lokaði þessum bikar ef svo má segja,“ sagði Einar Ingi.

Ég elska þetta lið

Afturelding varð síðast bikarmeistari árið 1999 en Einar Ingi horfði þá á leikinn úr stúkunni.

„Þetta hefur verið ekkert eðlilega löng þrautaganga ef svo má segja. Ég er búinn að vera í meistaraflokki í 22 ár og ég kom inn í þetta árið 2002 sirka. Þetta er ekkert eðlilega sætt fyrir mig persónulega, ég elska þetta lið og þessa stuðningsmenn. Ég held að það hafi ekki verið svona margir í Höllinni síðan árið 1999,“ bætti Einar Ingi við í samtali við mbl.is. 

Afturelding er bikarmeistari 2023.
Afturelding er bikarmeistari 2023. mbl.is/Óttar Geirsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert