Ekki forsvaranlegt að aflétta öllu

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra að loknum fundinum í dag.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra að loknum fundinum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra telur ekki forsvaranlegt að aflétta öllum takmörkunum. Segir hún Íslendinga verða að hafa þolinmæði og úthald aðeins lengur.

Ráðherra kynnti afléttingar á takmörkunum fyrr í dag. Eru stærstu breytingarnar þær að opnunartími veitinga- og skemmtistaða lengist um klukkutíma, fjöldatakmarkanir fara úr 200 í 500 og hægt verði að halda viðburði með allt að 1.500 manns að því gefnu að gestir hafi fengið neikvæða niðurstöðu úr hraðprófi. Grímuskylda og nálægðartakmörk eru óbreytt.

Spurð hvers vegna við séum ekki að ganga jafn langt og nágrannaríki okkar í afléttingum í ljósi þess hve vel hafi gengið upp á síðkastið að ná utan um smit í samfélaginu, segir hún Íslendinga hafa reynslu af slíkum aðgerðum frá því í sumar. Endaði það ekki vel að hennar sögn.

„Við náttúrulega gengum mjög langt um mánaðamótin júní-júlí, og það er það sem nágrannaríki okkar eru að gera núna. Við höfum fengið þá reynslu að fá mjög hastaralega bylgju yfir okkur þannig við teljum ekki forsvaranlegt að aflétta öllu í einu skrefi aftur því þá gætum við lent í sömu stöðu með fullbólusett samfélag.“

Segir hún skrefið í dag varfærið en er hún jafnframt bjartsýn á að hægt verði að slaka enn meira á takmörkunum á komandi tímum, sérstaklega í ljósi þess hve vel hefur gengið að ná utan um síðustu bylgju þrátt fyrir að takmarkanir hafi ekki verið strangar. 

„Við tökum þetta skref í dag sem er þó varfærið og höldum áfram að sjá fyrir okkur áframhaldandi afléttingar.“

Verðum að halda áfram að lesa í faraldurinn

Undanfarið eitt og hálft ár hefur íslenskt samfélag markast af takmörkunum og afléttingum á sóttvarnaraðgerðum til skiptis. Spurð hvort ríkisstjórnin sjái fyrir að hægt verði að útfæra einhverja framtíðarstefnu í sóttvarnaaðgerðum sem myndi ekki taka sífelldum breytingum út frá smitfjölda, segir Svandís það ólíklegt.

„Ég held það sé ekki raunhæft. Við getum ekki verið með neinar takmarkandi ráðstafanir nema það sé hægt að rökstyðja þær með góðum hætti, með sóttvarnarökum. Ég held að það muni áfram vera þannig að við munum þurfa að lesa í faraldurinn og reyna að hafa eins litlar takmarkanir á daglegu lífi hér eins og nokkur sé kostur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert