Ísland fékk skell í Tékklandi

Andri Fannar Baldursson og félagar fengu skell í dag.
Andri Fannar Baldursson og félagar fengu skell í dag. mbl.is/Eyþór

Íslenska U21 árs landslið karla mátti þola 4:1-tap á útivelli gegn Tékklandi í undankeppni Evrópumótsins í fótbolta.

Þrátt fyrir úrslitin er Ísland áfram í þriðja sæti með sex stig og Tékkland í fjórða sæti með fimm. Danmörk og Wales eru efst með ellefu stig hvort.

Tékkneska liðið byrjaði af miklum krafti og fékk tvö góð færi strax í upphafi leiks. Lúkas Blöndal Petersson stóð vaktina vel í markinu og varði í tvígang vel.

Hann kom hins vegar engum vörnum við á 13. mínútu er Václav Sejk skoraði fyrsta markið með skalla úr teignum eftir sendingu frá Adam Karabec.

Sjö mínútum síðar bætti Daniel Fifa við öðru marki Tékklands með skoti úr markteignum eftir sendingu frá Michal Sevcik frá vinstri.

Leikurinn róaðist eftir það. Íslenska liðið ógnaði lítið og tékkneska liðið færði sig aftar á völlinn. Var staðan í leikhléi því 2:0.

Sú staða breyttist í 3:0 á 52. mínútu þegar varamaðurinn Christophe Kabongo skoraði með góðu skoti í bláhornið fjær við vítateigslínuna, en Kabongo skoraði einmitt líka gegn íslenska liðinu í fyrri leik liðanna á Víkingsvellinum síðasta haust.

Ólafur Guðmudnsson var nálægt því að minna muninn með skalla á 56. mínútu en Martin Vitík bjargaði á línu þegar boltinn virtist vera á leiðinni í netið. Kristall Máni Ingason átti svo hættulegt skot að marki á 65. mínútu en í varnarmann og í stöngina.

Fimm mínútum síðar skoraði Daniel Fila sitt annað mark og fjórða mark Tékklands þegar hann slapp einn í gegn eftir sendingu frá Sevcik og skoraði af öryggi framhjá Lúkasi Blöndal.

Kristall Máni Ingason lagaði stöðuna fyrir íslenska liðið á 79. mínútu með marki úr víti, eftir að Valgeir Valgeirsson var felldur innan teigs. Nær komst íslenska liðið ekki og þriggja marka ósigur varð raunin.

Tékkland U21 4:1 Ísland U21 opna loka
90. mín. Tom Sloncík (Tékkland U21) kemur inn á
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert