Dánarorsök ljós tveimur mánuðum eftir líkfundinn

Jonathan Gerrish, Ellen Chung og dóttir þeirra, Miju.
Jonathan Gerrish, Ellen Chung og dóttir þeirra, Miju. Ljósmynd/Rosanna Heaslet

Mikill hiti olli dauða fjölskyldu í Sierra National Forest í Bandaríkjunum, að sögn lögreglu sem hefur í tvo mánuði leitað skýringa á dauða fjölskyldunnar. 42 stiga hiti var á svæðinu þegar fjölskyldan, sem samanstóð af parinu Jonathan Gerrish og Ellen Chung sem og eins árs dóttur þeirra Miju og hundinum þeirra, er talin hafa andast. 

Lögregla telur mögulegt að ofþornun hafi einnig spilað inn í harmleikinn. 

Lík fólksins og hundsins fundust að morgni 17. ágúst. Þá hafði fjölskyldan verið á gangi í skóginum án vatns. Hún fannst í um fjögurra kílómetra fjarlægð frá bíl sínum.

New York Times greinir frá.

Lögreglan stóð algjörlega á gati þegar kom að því að ákvarða dánarorsök fólksins til að byrja með. Helstu kenningar þá voru þær að gasmengun eða mengun af völdum þörunga væri um að kenna.

Áttu stuttan en erfiðan kafla eftir af göngunni

Jeremy Briese, fógeti í Mariposa-sýslu, sagði á blaðamannafundi í gær að afar erfitt væri að rannsaka hitatengd dauðsföll. Hann bætti því við að fjöldi ríkis- og alríkisstofnana hafi eytt mikilli vinnu í að komast að því hvað hefði getað leitt til dauða fólksins.

„Frá upphafi hafa Gerrish og Chung fjölskyldan verið í forgangi hjá okkur,“ sagði Briese. „Við fengum fjölda ábendinga og rannsóknarbeiðna sem allar voru skoðaðar og teknar til greina. Við erum fullviss um niðurstöðu okkar.“

Fjölskyldan átti einungis stutta göngu eftir af um 13 kílómetra gönguleið sem hún virðist hafa verið á. Hitinn var hár, landslagið bratt og skugginn takmarkaður. Ekkert farsímasamband er á svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert