FIFA samþykkir 26-manna leikmannahópa á HM

Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands, er einn þeirra sem getur valið …
Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands, er einn þeirra sem getur valið 26 leikmenn í HM-hópinn sinn. AFP/Paul Ellis

Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, hefur samþykkt að leyfa þátttökuliðum á HM 2022 í Katar að velja 26 leikmenn í leikmannahópa sína, líkt og var raunin á EM 2020 á síðasta ári.

Upphaflega var ákvörðun Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA um að leyfa 26-manna leikmannahópa á EM 2020 tekin vegna kórónuveirufaraldursins en nú hefur FIFA ákveðið að fylgja UEFA að málum.

Á stórmótum karla í knattspyrnu hafði venjan verið 23-manna leikmannahópar.

Í tilkynningu frá FIFA segir að allir 15 leikmennirnir sem eru ekki í byrjunarliði megi sitja á bekknum, sem var ekki raunin á EM 2020 þegar þrír leikmenn voru ávallt utan hóps.

Frestur fyrir öll 32 liðin sem taka þátt á HM 2022 í Katar í nóvember næstkomandi rennur út 20. október, 30 dögum áður en opnunarleikur Senegal og Hollands fer fram.

FIFA greindi einnig frá því að alls mættu 26 manns, 15 varamenn og 11 starfsmenn hvers liðs, sitja á varamannabekknum í hverjum leik. Af starfsmönnunum 11 verður að minnsta kosti einn að vera læknir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert