Sóknarmaður City frá í sex vikur

Ferran Torres (t.h.) í leiknum gegn Frakklandi á sunnudag.
Ferran Torres (t.h.) í leiknum gegn Frakklandi á sunnudag. AFP

Spænski sóknarmaðurinn Ferran Torres, leikmaður Englandsmeistara Manchester City í knattspyrnu, meiddist í landsliðsverkefni með Spáni á dögunum og verður því frá keppni í um sex vikur.

Þessu greinir Simon Bajkowski, íþróttafréttamaður hjá Manchester Evening News, frá á twitteraðgangi sínum.

Hann segir þar að Torres hafi meiðst áður en samt tekið þátt í síðasta leik Spánar, úrslitaleiknum gegn Frakklandi í Þjóðadeild Evrópu á sunnudag, sem hafi gert illt verra og valdið því að hann verði lengur frá.

Skörð eru því hoggin í sóknarlínu Man City þar sem ólíklegt er að Brasilíumaðurinn Gabriel Jesus geti tekið þátt í leik liðsins gegn Burnley í ensku úrvalsdeildinni á laugardag vegna þess að hann er einn þeirra suður-amerísku leikmanna sem spila með landsliði sínu aðfaranótt föstudags og því mjög stutt á milli leikja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert