Telja litlar líkur á fleiri smitum

Skólabörn úr Egilsstaðaskóla eru meðal þeirra sem eru í sóttkví.
Skólabörn úr Egilsstaðaskóla eru meðal þeirra sem eru í sóttkví. Ljósmynd/Aðsend

37 og þar af 28 skólabörn eru komin í sóttkví eftir að upp kom Covid smit á Egilsstöðum í gær. Um er að ræða smit hjá bílstjóra skólabíls. Fram kemur í tilkynningu frá Lögreglunni á Austurlandi að það sé metið sem svo að líkur fleiri smitum séu fremur litlar.  

Hér fyrir neðan má lesa tilkynninguna í heild sinni: 

„Smitrakning hefur staðið yfir á Austurlandi vegna COVID smits er upp kom í gær. Einn er í einangrun frá í gær og þrjátíu og sjö komnir í sóttkví. Af þeim fóru sex einkennalausir í sýnatöku í morgun og er niðurstöðu að vænta í kvöld. Það ásamt fleiru er liður í að grafast fyrir um uppruna smitsins og hefta útbreiðslu,“ segir í tilkynningu. 

„Aðgerðastjórn metur það svo að með þeim aðgerðum sem nú hafa verið framkvæmdar og í ljósi aðstæðna séu líkur á fleiri smitum fremur litlar þó ekki séu þær útilokaðar. Smitrakning heldur áfram með það að markmiði að leita uppruna smitsins,“ segir í tilkynningu. 

„Gert er ráð fyrir að skólahald í Egilsstaðaskóla og Fellaskóla verði með eðlilegum hætti frá og með morgundeginum en þeir eru lokaðir í dag, miðvikudag. Ekki er talin ástæða til að grípa til frekari ráðstafana að sinni. Íbúar engu að síður hvattir til að gæta sérstaklega að persónubundnum sóttvörnum næstu daga, muna tveggja metra reglu, grímunotkun, handþvott og sprittnotkun. Þá er mikilvægi þess áréttað að fara ekki til vinnu ef veikinda verður vart og leita þá ráðgjafar á heilsugæslu eða í síma 1700.

Ástandið er viðkvæmt enn sem komið er. Förum varlega,“ segir Ennfremur í tilkynningu. 

Smit kom upp á Egilsstöðum.
Smit kom upp á Egilsstöðum. Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert