Afléttingar tilkynntar í nágrannalöndum

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur (til vinstri), í heimsókn á bólusetningarmiðstöð …
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur (til vinstri), í heimsókn á bólusetningarmiðstöð í byrjun desember. AFP

Rúm vika er frá því að ríkisstjórn Íslands herti verulega sóttvarnareglur hér innanlands til þess að stemma stigu við útbreiðslu faraldursins. Viðraðar voru miklar áhyggjur af álagi á heilbrigðiskerfið, en Landspítali hefur verið á neyðarstigi í að verða mánuð.

Síðan hertar reglur tóku gildi hefur smitfjöldi haldist nokkuð stöðugur og á bilinu 1.200 til 1.500 greinst á hverjum degi. Í flestum nágrannaríkjum Íslands hafa stjórnvöld gefið það loforð að afléttingar séu í augsýn. Á Íslandi hafa engin slík áform verið opinberuð þótt Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, settur forstjóri Landspítala, hafi greint frá því í gær að til stæði að skoða afléttingar með sóttvarnalækni í vikunni.

Byrja í þessari viku

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands sagði í síðustu viku að ríkisstjórnin myndi byrja að létta á sóttvarnareglum í þessari viku. Þá verður létt á grímuskyldu, hætt að fara fram á bólusetningarvottorð og stjórnvöld ráðleggja fólki ekki lengur að vinna heiman frá sér. Á Írlandi er sömu sögu að segja; varaforseti landsins, Leo Varadkar, sagði afléttingar í sjónmáli og gott væri að miða við 31. mars. Hann ítrekaði þó að ríkisstjórnin gæti framlengt aðgerðir ef staðan breyttist. Þar verður hætt að fara fram á bólusetningarvottorð en hlutfall fullbólusettra á Írlandi er eitt það hæsta á heimsvísu og helmingur hefur nú þegar fengið örvunarskammt. Þá er einnig stefnt að því að enda grímuskyldu.

Ómíkron breytt stöðunni

Ómíkron er nú ríkjandi afbrigðið í flestum löndum heimsins. Afbrigðið er meira smitandi en fyrri afbrigði en á sama tíma veldur það ekki jafn alvarlegum veikindum. Þrátt fyrir gríðarlegan fjölda smita í öllum löndum hefur innlagnatíðni á sjúkrahús ekki hækkað og því álag á heilbrigðiskerfi landa ekki verið jafn mikið og fyrst var spáð skömmu eftir að afbrigðið greindist fyrst.

Á Norðurlöndunum er sama staða. Þar stefnir allt í afléttingar á þeim grundvelli að ómíkron-afbrigðið hafi ekki reynst eins skætt og fyrri afbrigði, þótt afar smitandi sé.

Eftir mánuð af hörðum sóttvarnareglum í Danmörku hafa kvikmyndahús, söfn og fleiri menningarstofnanir verið opnuð aftur að fullu. Gerði ríkisstjórn landsins það á þeim grundvelli að innlagnatíðni, og þá sérstaklega á gjörgæsludeild sjúkrahúsa, hefur snarlækkað á sama tíma og smittölur hafa verið á uppleið. Þá mega áhorfendur aftur koma á kappleiki í íþróttum þótt það sé háð fjöldatakmörkunum.

Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert