Handbolti

Guðmundur Bragi: Þeir náðu okkur aldrei eftir það

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Guðmundur Bragi Ástþórsson í leik kvöldsins.
Guðmundur Bragi Ástþórsson í leik kvöldsins. Vísir/Snædís Bára

Haukar eru komnir í úrslitaleik Powerade bikarsins eftir að hafa valtað yfir Fram í seinni hálfleik í Laugardalshöll í kvöld. Lokatölur 24-32.

Guðmundur Bragi Ástþórsson, leikstjórnandi Hauka, var hæstánægður að leik loknum. Aðspurður hvernig honum hafi fundist leikurinn heilt yfir hafði Guðmundur Bragi þetta að segja.

„Mér fannst hann geggjaður, mjög góður leikur. Við náðum svo mikilli ákefð í vörn og það fannst mér drífa okkur rosalega áfram þegar öll ástríðan kom upp og öll ákefðin. Þetta var mjög mikið vörnin í byrjun en auðvitað duttum við aðeins niður eftir byrjunina og leyfðum þeim að komast aðeins of nálægt okkur. Við byrjum svo seinni hálfleikinn af svo miklum krafti að þeir náðu okkur aldrei eftir það.“

Guðmundur Bragi var að spila sinn fyrsta leik á árinu eftir erfið meiðsli og skilaði fimm mörkum og þremur stoðsendingum í leiknum. Guðmundur Bragi sagðist það vera fáránlega gaman að vera kominn aftur á völlinn.

„Það er fáránlega gaman að vera kominn aftur á völlinn. Þetta eru búin að vera svolítið þreytt meiðsli, ég var líka svolítið stressaður í morgun en þetta var bara ógeðslega gaman að geta klárað þennan leik.“

Haukar hafa átt erfitt tímabil og sitja í 8. sæti Olís-deildarinnar en eru nú komnir í úrslitaleik bikarsins. Guðmundur Bragi segir það skipta liðinu miklu máli að vera komnir í þann leik.

„Við erum ekki búnir að eiga okkar besta tímabili, þannig að þetta skiptir okkur rosalega miklu máli og við erum allir mjög glaðir að vera komnir svona langt,“ sagði Guðmundur Bragi Ástþórsson að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×