Erlent

Táningar gáfu sig fram við lögreglu vegna eldsins í Sidney

Samúel Karl Ólason skrifar
Eldurinn var mjög umfangsmikill um tíma og þúsundir íbúa Sidney-borgar fylgdust með slökkvistarfinu.
Eldurinn var mjög umfangsmikill um tíma og þúsundir íbúa Sidney-borgar fylgdust með slökkvistarfinu. EPA/DEAN LEWINS

Tveir þrettán ára táningar hafa gefið sig fram við lögreglu í Sidney í Ástralíu vegna sögufrægs húss sem varð eld að bráð í gær. Lögreglan hafði áður sagt að hópur ungmenna hefði sést hlaupa frá byggingunni skömmu áður en hún stóð í ljósum logum.

Á blaðamannafundi í dag sagði einn yfirmaður lögreglunnar í Nýja Suður-Wales, að vitað væri að fleiri ungmenni en þeir tveir sem hefðu gefið sig fram hefðu verið í húsinu og voru þau beðin um að gefa sig einnig fram.

Eldurinn kviknaði í sjö hæða húsi sem reist var árið 1912. Þar var áður þekkt hattaverksmiðja en til stóð að breyta húsinu í hótel. Húsið hrundi að mestu vegna eldsins í gær.

Sjá einnig: Óðagot þegar alelda hús hrundi

Fleiri en 120 slökkviliðsmenn á þrjátíu slökkviliðsbílum börðust gegn eldinum og voru lögregluþjónar og sjúkraflutningamenn einnig að störfum á svæðinu. Búið er að ná tökum á eldinum. Engan sakaði í eldinum eða vegna hans.

Aðrar nærliggjandi byggingar voru einnig rýmdar en fólki var leyft að snúa aftur um tíma í dag til að ná í mikilvægar eigur. Óttast er að hitinn frá eldinum í gær hafi gert dregið úr burðarþoli veggja bygginganna. Þá loga enn glóð í rústunum sem slökkviliðsmenn óttast að geti kviknað aftur.

Byggingin var yfirgefin. Ytri veggir hennar voru hlaðnir en að innan var hún úr timbri sem var gamalt og illa farið. Þegar eldurinn kviknaði dreifðist hann mjög hratt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×