McManaman um Liverpool: Óhugsandi fyrir nokkrum vikum

„Þetta er ótrúleg byrjun hjá Thomas Tuchel og mér fannst Chelsea frábærir í kvöld,“ sagði Steve McManaman, fyrrverandi leikmaður Liverpool, í samtali við þá Tómas Þór Þórðarson og Gylfa Einarsson eftir 1:0-sigur Chelsea gegn Liverpool á Anfield í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.

Chelsea var sterkari aðilinn á Anfield í kvöld og Englandsmeistarar Liverpool áttu aðeins eitt skot á markið en þetta var fimmta tap Liverpool í röð í deildinni á heimavelli sem er versti árangur í sögu félagsins.

„Það er ótrúlegt að hugsa til þess að Liverpool hafi ekki tapað deildarleik á Anfield í fjögur ár og svo kemur svona taphrina,“ sagði McManaman.

„Tvö jafntefli og fimm töp var óhugsandi fyrir nokkrum vikum. Sóknarlínan var langt frá sínu besta og þeir voru aldrei líklegir til þess að skora.

Liverpool gerði vel í að halda boltanum en eins og svo oft áður vantaði allan kraft á síðasta þriðjungi vallarins.

Þetta féll ekki með þeim og þetta er alvöruáhyggjuefni hversu illa sóknarmönnum liðsins gengur að skora,“ sagði McManaman meðal annars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert