Ölvunarsvefn undir stýri með tónlist í botni

Ökumaður sem lögregla hafði afskipti af í nótt svaf ölvunarsvefni undir stýri í bifreið sinni þegar að var komið.

Bifreiðin var í gangi og tónlist í botni. Hann var handtekinn og færður á lögreglustöð.

Ölvaður með þriggja ára barn í bifreið

Annar ökumaður sem var handtekinn fyrr í vikunni vegna ölvunaraksturs var með þriggja ára barn sitt með sér í bifreiðinni. Tilkynning var send á barnavernd, að sögn lögreglunnar á Suðurnesjum.

Ólögráða ungmenni og kannabis

Í bifreið sem var stöðvuð við hefðbundið eftirlit fundust meint kannabisefni við leit að fenginni heimild. Þrjú ólögráða ungmenni voru í bifreiðinni, ásamt ökumanni, og var haft samband við foreldra þeirra og málið tilkynnt til barnaverndar.

Þá voru fáeinir til viðbótar teknir úr umferð vegna gruns um vímuefnaakstur.

Ók á 137 km hraða

Á annan tug ökumanna voru kærðir fyrir of hraðan akstur í vikunni. Sá sem hraðast ók mældist á 137 km hraða á Reykjanesbraut þar sem hámarkshraði er 90 km.

Ökumaðurinn reyndist vera sautján ára og var haft samband við forráðamann og tilkynning send á barnavernd.

Höfð voru afskipti af erlendum farþega sem var að koma til landsins. Hann reyndist vera með kannabisefni í fórum sínum og afsalaði sér því til eyðingar. Málinu lauk með skýrslutöku í flugstöðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert