26 þingmenn vilja skýrslu um leghálssýni

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar.

26 alþingismenn hafa lagt fram beiðni til heilbrigðisráðherra um að unnin verði óháð skýrsla um það sem bjó að baki því að greiningu á leghálssýnum var útvistað til danska sjúkrahússins Hvidovre, í stað þess að Landspítalinn tækist verkið á hendur.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, fer fyrir þingmannahópnum og hefur gagnrýnt stjórnvöld mjög fyrir þessa ákvörðun. Á Alþingi í dag sagði hún gagnrýni sérfræðinga hafa verið þunga, enda hefði ekki verið útskýrt hvers vegna Landspítalanum hefði ekki verið falið að greina sýnin eftir að verkefnið fór frá Krabbameinsfélaginu.

„Skimun varðar heilsu og líf kvenna,“ sagði Þorbjörg Sigríður. 

„Það er mikilvægt að traust ríki í garð heilbrigðiskerfisins og að sátt sé um fyrirkomulag heilbrigðisþjónustu. Þegar sérfræðingar kalla breytingarnar aðför að heilsu kvenna, þá ber Alþingi að hlusta,“ sagði Þorbjörg.

Fram kom í máli Karls G. Kristinssonar prófessors og yfirlæknis á veirufræðideild Landspítalans í Læknablaðinu að Landspítalinn hefði getað greint öll sýnin – án þess að nokkur vafi léki á gæðum framkvæmdarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert