Staðfesta samninginn við Ólaf

Ólafur Guðmundsson hitar upp fyrir leik með íslenska landsliðinu á …
Ólafur Guðmundsson hitar upp fyrir leik með íslenska landsliðinu á HM í Kristianstad í janúar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sænska handknattleiksfélagið Karlskrona staðfesti í dag að Ólafur Guðmundsson hefði skrifað undir þriggja ára samning við félagið en hann kemur til liðs við það í sumar frá Amicitia Zürich í Sviss.

Aftonbladet greindi frá því í síðustu viku að Ólafur og fjölskylda væru á leið til Svíþjóðar á ný en þar lék hann áður með Kristianstad í átta ár, og að Karlskrona væri áfangastaðurinn.

„Ólafur er nákvæmlega sú tegund af leikmanni sem við höfum leitað að. Skytta í háum gæðaflokki og með mikla reynslu. Við hlökkum til að vinna með honum næstu þrjú árin,“ segir Tobias Karlsson, íþróttastjóri  Karlskrona, á vef félagsins.

Karlskrona er í harðri baráttu um að vinna sér sæti í úrvalsdeildinni og því er ekki ljóst í hvaða deild Ólafur leikur með liðinu á næsta tímabili.

„Ef við vinnum okkur sæti í úrvalsdeildinni verður Ólafur okkur gríðarlega mikill í þeirri baráttu að halda okkur þar. Ef við leikum áfram í B-deildinni verður markmiðið að fara upp að ári. Í dag erum við með lið sem er í fremstu röð í þessari deild og með gæðaleikmann eins og Ólaf í okkar röðum ætti okkur að takast það,“ segir Karlsson.

„Karlskrona er spennandi félag og ég hlakka til að spila með því. Ég hef bara heyrt góða hluti um þetta félag og vonast til með að reynsla mín geti hjálpað liðinu. Ég hlakka til að hitta liðsfélagana og alla í félaginu,“ segir Ólafur á heimasíðu Karlskrona.

Ólafur, sem er 32 ára gamall, lék með Montpellier í Frakklandi eftir Svíþjóðardvölina og fór þaðan til Sviss síðasta sumar. Hann hefur einnig leikið með Hannover-Burgdorf í Þýskalandi og dönsku liðunum Nordsjælland og AG, eftir að hann yfirgaf FH 18 ára gamall.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert