Nýliðarnir skelltu Stjörnunni

Hrafnhildur Björnsdóttir úr Tindastóli og Jasmín Erla Ingadóttir í Stjörnunni …
Hrafnhildur Björnsdóttir úr Tindastóli og Jasmín Erla Ingadóttir í Stjörnunni eigast við í kvöld. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

Nýliðar Tindastóls gerðu sér lítið fyrir og unnu frábæran 1:0-sigur á Stjörnunni þegar liðin áttust við á Sauðárkróksvelli í 5. umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld.

Stjarnan stýrði ferðinni í fyrri hálfleik og fékk þrjú úrvals færi.

Snædís María Jörundsdóttir komst nálægt því að koma gestunum úr Garðabæ í forystu á níundu mínútu þegar Gwendolyn Mummert missti boltann frá sér í eigin vítateig, Snædís María tók skotið en Monica Wilhelm í marki Tindastóls varði vel aftur fyrir.

Eftir rúmlega hálftíma leik fór Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir illa með Rakel Sjöfn Stefánsdóttur og Aldísi Maríu Jóhannsdóttur á vinstri kantinum, þrumaði að marki vinstra megin við markteiginn, en Wilhelm varði frábærlega.

Úlfa Dís náði frákastinu og reyndi annað skot úr enn betra færi en Mummert tókst að bjarga á marklínu.

Stjarnan átti mikinn fjölda marktilrauna til viðbótar og nokkrum sinnum þurfti Wilhelm að taka á honum stóra sínum, og gerði það vel.

Þrátt fyrir gífurlega yfirburði auðnaðist gestunum ekki að brjóta ísinn í fyrri hálfleik og því var markalaust þegar flautað var til leikhlés.

Síðari hálfleikur fór mun rólegar af stað en kom það sem þruma úr heiðskíru lofti að Tindastóll tók forystuna eftir tæplega klukkutíma leik.

Rakel Sjöfn Stefánsdóttir fann þá Murielle Tiernan hægra megin í teignum með góðri sendingu, Tiernan tók frábærlega við boltanum, komst þannig fram hjá Málfríði Ernu Sigurðardóttur og þrumaði boltanum niður í fjærhornið.

Eftir svakalega yfirburði í fyrri hálfleik var sem allur máttur væri úr Stjörnunni í þeim síðari. Eftir að hafa skapað sér færi í nánast hverri sókn í þeim fyrri tókst liðinu varla að skapa sér færi í síðari hálfleik.

Á meðan efldust Stólarnir og lokuðu á allar tilraunir gestanna til sóknaraðgerða auk þess sem Tiernan hélt áfram að valda usla hinum megin með gífurlegum styrk sínum og krafti.

Þrátt fyrir að reyna sitt besta, þar sem Jasmín Erla Ingadóttir komst næst með skoti eftir hornspyrnu sem Mummert skallaði frá, tókst Stjörnunni ekki að jafna metin og niðurstaðan var 1:0-sigur Tindastóls.

Þetta var fyrsti sigur Stólanna í sumar og fór liðið upp úr botnsætinu og í áttunda sætið, þar sem liðið er nú með fimm stig.

Stjarnan er í fimmta sæti með sjö stig.

Tindastóll 1:0 Stjarnan opna loka
90. mín. Ólína Ágústa Valdi­mars­dótt­ir (Stjarnan) á skot framhjá Skot fyrir utan teig, hættulítið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert