Tilfinningaþrungið viðtal við Kára á Wembley

Fyrirliðarnir á Wembley. Kári Árnason eltir Harry Kane í leiknum …
Fyrirliðarnir á Wembley. Kári Árnason eltir Harry Kane í leiknum í kvöld. AFP

„Það er held ég alveg klárt að þetta var minn síðasti leikur,“ sagði Kári Árnason í viðtali við Stöð 2 Sport eftir landsleik Íslands og Englands í Þjóðadeild UEFA í knattspyrnu á Wembley í kvöld.

Kári var að spila sinn 88. landsleik fyrir ísland en hann er orðinn 38 ára gamall. Hann byrjaði með fyrirliðabandið á Wembley en íslenska liðið varð að þola 4:0-tap. „Við erum að spila við hörkulið og komumst aldrei nálægt þeim.Svo missum við mann út af og þá er þetta orðið vonlaust.“

Kári segir það erfitt að horfast í augu við að hann sé að yfirgefa landsliðið en hann hjálpaði því að komast á tvö stórmót í röð. Þá var liðið grátlega nálægt því þriðja en tapaði eins og flestum er kunnugt gegn Ungverjalandi í umspilinu í síðustu viku.

„Ég tók svolítið út tilfinningaskalann á móti Ungverjalandi. Þetta er auðvitað mjög leiðinlegt og að hugsa til þess að fá aldrei að spila aftur með þessu liði er skelfileg tilhugsun. Þetta er það skemmtilegasta sem ég hef gert á lífsleiðinni, ég brann fyrir þetta lið og gerði allt sem í mínu valdi stóð til að hjálpa því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert