Stórsigur Keflavíkur – Höttur vann í Grindavík

Dominykas Milka fór mikinn fyrir Keflvíkinga.
Dominykas Milka fór mikinn fyrir Keflvíkinga. mbl.is/Árni Sæberg

Dominykas Milka átti mjög góðan leik fyrir Keflavík þegar liðið fékk Þór frá Akureyri í heimsókn í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Dominos-deildinni, í Blue-höllina í Keflavík í kvöld.

Leiknum lauk með 102:69-stórsigri Keflavíkur en Mikla skoraði 19 stig og tók ellefu fráköst í liði Keflvíkinga.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en Keflavík leiddi með sex stigum í hálfleik, 48:42. Keflvíkingar skoruðu 30 stig gegn 10 stigum Þórsara í fjórða leikhluta og þar með var leikurinn svo gott sem búinn.

Calvin Burks jr. var stigahæstur Keflvíkinga með 21 stig en Ivan Aurrecoechea var atkvæðamestur Þórsara með 15 stig og fimm fráköst.

Keflavík er með 20 stig í efsta sæti deildarinnar en Þórsarar eru í ellefta sætinu með sex stig.

David Guardia skoraði 8 stig fyrir Hött.
David Guardia skoraði 8 stig fyrir Hött. Árni Sæberg

Hattarmenn gerðu góða ferð til Grindavíkur og unnu afar þýðingarmikinn 96:89-sigur í botnbaráttunni.

Grindavík leiddi með fimm stigum í hálfleik, 52:47, en í þriðja leikhluta skoraði Höttur 28 stig gegn 15 stigum Grindavíkur.

Þrátt fyrir hetjulega baráttu Grindvíkinga í fjórða leikhluta tókst þeim ekki að jafna metin og Höttur fagnaði sigri.

Michael Mallory skoraði 21 stig fyrir Hött og Bryan Anton Alberts 20 stig. Dagur Kár Jónsson var stigahæstur Grindvíkinga með 25 stig.

Höttur er með átta stig í tíunda sæti deildarinnar en Grindavík er með 12 stig í sjötta sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert