Reiturinn er við Fornalund sem er sagður gróðursælt útivistarsvæði sem verði varðveitt í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Auk íbúða verði möguleiki á atvinnustarfsemi á jarðhæðum við Breiðhöfða. Ekkert deiliskipulag var í gildi fyrir á svæðinu.
Opinn, samnýtanlegur bílakjallari verður undir einni lóðinni með samtals 147 bílastæðum en til viðbótar verða nokkur stæði á yfirborði, bæði á borgarlandi og innan lóða. Ekki gert ráð fyrir bílaumferð á yfirborði innan lóða.
Fjögur hús eru á lóðinni í dag og munu tvö þeirra standa áfram og fá nýtt hlutverk. Það eru húsin sem nú hýsa skrifstofur og söluskrifstofur BM Vallár. Annað húsið sem verður fjarlægt er norðan við söluskrifstofur BM Vallár og hýsir verslun og lager en hitt er vestantil á svæðinu og er í dag verkstæði og starfsmannaaðstaða.
Á svæðinu verða blandaðar íbúðagerðir og gert er ráð fyrir hærri salarhæð á götuhæðum. Húsagerðir eru langhús, miðhús og punkthús, fjögurra til sjö hæða, og verða þök hallandi. Gert er ráð fyrir því að íbúðir hafi glugga til að minnsta kosti tveggja átta og verður lögð áhersla á góð dagsbirtuskilyrði.
Tillögunni var vísað til borgarráðs og verða skipulagsgögn gerð aðgengileg í skipulagsgátt eftir að ráðið samþykkir hana.