Þetta klassíska

Magnús Þór Magnússon í leiknum í kvöld.
Magnús Þór Magnússon í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Traustason

Magnús Þór Magnússon, fyrirliði Keflavíkur, var sáttur eftir 3:1 sigur á Fram í 11. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í Keflavík í kvöld.

„Baráttan skilaði sigrinum. Við vorum tilbúnir að fórna eins og í síðustu leikjum. Við vorum góðir í fyrri hálfleik en áttum heldur slappan seinni hálfleik en það var barátta í okkur og við ætluðum að verja markið. Þeir náðu að leka inn einu marki en það var gott að við svöruðum því strax og náðum aftur tveggja marka forystu. Þannig ég held að það sé fyrst og fremst vinnusemi og barátta sem skilaði sigrinum, þetta klassíska.“ 

Keflavík er í sjöunda sæti, tveimur stigum frá KR og á leik til góða. Aðspurður hvort tímabilið hafi verið framar væntingum hingað til sagði Magnús:

„Nei svosem ekki, við höfðum alltaf trú á okkur og vissum að menn vissu ekki alveg nógu mikið um okkar lið þar sem við vorum að púsla það saman seint. Við vissum samt um getu nýju leikmannanna okkar, Patrik (Patrik Johanessen), Ivan (Ivan kalyuzhnyi) og Dani (Dani Hatakka) sem eru gæða leikmenn. Mér finnst við í raun og veru eiga vera með fleiri stig, við klúðruðum á móti KA á Akureyri og ÍBV hér heima, þannig mér finnst við ættum að vera með fleiri stig á töflunni en eins og er.“

Stuðningsmenn Keflavíkur sungu allan leikinn og stóðu sig með prýði. 

„Þessir gæjar sem voru að hvetja okkur áfram eru geggjaður og það hjálpar okkur þvílíkt. Við höfum verið að standa okkur vel hérna heima og erum að sækja punkta hér sem er mikilvægt og stuðningurinn spilar mikið inn í það. Vonandi núna í framhaldinu koma sem flestir þegar veðrið er orðið heitara og sólin farin að skína,“ sagði Magnús í samtali við mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert