Lífstíðardómur Ratko Mladic staðfestur

Mladic þóttist taka ljósmyndir áður en dómurinn var kveðinn upp.
Mladic þóttist taka ljósmyndir áður en dómurinn var kveðinn upp. AFP

Stríðsglæpadómstóll á vegum Sameinuðu þjóðanna í málefnum fyrrum Júgóslavíu staðfesti dóm frá 2017 yfir Ratko Mladic í dag þar sem var dæmdur sekur um þjóðarmorð, stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni. Hann hlaut lífstíðarfangelsisdóm sem verður ekki haggað eftir úrskurð dómsins í dag.

Í yfirlýsingu stríðsglæpadómstólsins kemur fram að áfrýjunardeild hans hafi staðfest lífstíðarfangelsisrefsinguna frá 2017 og stæði fast við það að Mladic hefði framið þjóðarmorð, stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni.

Mladic var æðsti foringi í her Bosníu-Serba í borgarastríðinu í Júgóslavíu 1992 til 1995 og hlaut viðurnefnið „slátrarinn frá Bosníu“.

Foreldrar fórnarlamba Mladic, sem voru flest múslímar, stóðu fyrir utan dómshúsið í dag en þau hafa barist fyrir réttlæti um langt skeið. Dómsuppkvaðningunni var einnig sjónvarpað við minnisvarða um þjóðarmorðið í Srebrenicu. 

Bæði Joe Biden Bandaríkjaforseti og Michelle Bachelet Jeria formaður Mannréttindastofnunar Sameinuðu þjóðanna segjast fagna niðurstöðu dómstólsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert