Lágmarksverð á mjólk til bænda hækkar

Mjólkurverð hækkar um mánaðamótin.
Mjólkurverð hækkar um mánaðamótin. mbl.is

Verðlagsnefnd búvara hefur tekið ákvörðun um hækkun lágmarksverðs mjólkur til bænda og heildsöluverðs mjólkur og mjólkurafurða sem nefndin verðleggur frá og með 1. desember.

Fram kemur á vef landbúnaðarráðuneytisins, að lágmarksverð 1. flokks mjólkur til bænda hækkar um 3,38%, úr 101,53 kr./ltr í 104,96 kr./ltr. Heildsöluverð mjólkur og mjólkurvara sem nefndin verðleggur hækkar almennt um 3,81%, nema verð á undanrennu- og nýmjólkurdufti verður óbreytt.

Ráðuneytið segir, að verðhækkunin sé til komin vegna kostnaðarhækkana við framleiðslu og vinnslu mjólkur frá síðustu verðákvörðun 1. apríl 2021. Frá síðustu verðákvörðun til desembermánaðar 2021 hafi gjaldaliðir í verðlagsgrundvelli kúabús hækkað um 3,38%. Á sama tímabili hafi vinnslu- og dreifingarkostnaður afurðastöðva hækkað um 2,34%. Auk kostnaðarhækkana sem þegar hafi orðið byggi verðhækkun nú á umsaminni hækkun launa þann 1. janúar nk. og sé þá hækkun vinnslu- og dreifingarkostnaðar 4,32%. Með því að taka tillit til þessarar launahækkunar nú er talið að ekki verði þörf á nýrri verðlagningu í janúar 2022.

Síðast hækkaði lágmarksverð fyrir 1. flokk mjólkur til bænda í apríl sl., þá um 3,77%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert