Ungar athafnakonur buðu gesti velkomna á ráðstefnu í Hörpu á miðvikudaginn en hún bar yfirheitið Frá aðgerðum til áhrifa - Vertu breytingin. Þetta er fyrsta ráðstefnan sem er haldin með gestum í Hörpu síðan faraldurinn hófst fyrir rúmu ári síðan. Myndir frá viðburðinum má finna neðst í fréttinni.

Katrín Jakobsdóttir forsætis- og jafnréttisráðherra flutti opnunarávarp ráðstefnunnar og byrjaði daginn með krafti. Katrín talaði um mikilvægi þess að leyfa okkur að klúðra, treysta innsæinu og fylgja maganum. Hún viðurkenndi fyrir salnum að hún kynni til að mynda alls ekki að borða með hnífapörum og það hafi oft komið henni í vandræði eftir að hún varð forsætisráðherra.

„Konur þurfa ekki að vera framúrskarandi til þess að ná árangri. Þegar okkur mistekst þurfum við að standa saman, því samstaða kvenna hefur skilað ótrúlegum árangri hingað til,“ er haft eftir Katrínu.

Aðrir fyrirlesarar ráðstefnunnar voru Hrund Gunnsteinsdóttir, Caritta Seppa, Emma Holten, María Bjarnadóttir, Salam Al-Nukta og Sigurlína Ingvarsdóttir.

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Lyfju, og Sigyn Jónsdóttir, fyrrum formaður UAK, áttu samtal um framþróun í takt við ástríðu. Sigríður Margrét deildi með salnum þeim þremur lykilatriðum sem hafa skilað henni árangri en þau eru vinnusemi, hugrekki og viðhorf. Hún hefur einsett sér að velja góð verkefni með góðu fólki og telur að það hafi komið sér á þann stað sem hún er í dag. „Ef þú ert að vinna í umhverfi sem fyllir þig af ástríðu þá nærðu árangri,” sagði Sigríður.

Aðgerðarsinninn Emma Holten og María Bjarnadóttir lögfræðingur ræddu hvernig þær hafa nálgast sama markmið með ólíkum aðferðum. Báðar voru þær sammála um að það væri álag að taka slaginn og að vera opinber femínisti. Þær komu inn á að það væri nauðsynlegt fyrir baráttuna að hafa húmor og fá útrás í leiðinni.

Rauði þráðurinn í gegnum erindi dagsins var hvatning til ráðstefnugesta að taka af skarið og vera breytingin. Fyrirlesarar deildu ráðum og tólum á borð við sköpunargleðiæfingar og heilræði um að fylgja innsæinu. Sömuleiðis voru ofurkonur hvattar til að minnka kröfur til sín og leyfa sér að prófa sig áfram þegar kemur að starfsframa.

© Karítas Sigvaldadóttir (Karítas Sigvaldadóttur)

© Karítas Sigvaldadóttir (Karítas Sigvaldadóttur)

© Karítas Sigvaldadóttir (Karítas Sigvaldadóttur)

© Karítas Sigvaldadóttir (Karítas Sigvaldadóttur)

© Karítas Sigvaldadóttir (Karítas Sigvaldadóttur)

© Karítas Sigvaldadóttir (Karítas Sigvaldadóttur)