Skanna svæðið með dróna

Vindurinn kveikti í glæðum sem slökkvilið keppist nú við að …
Vindurinn kveikti í glæðum sem slökkvilið keppist nú við að slökkva. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Enn vaktar slökkvilið sinubrunann í hrauninu við Straumsvík en vindurinn hefur þó kveikt örlítið í glæðunum. Notast var við dróna síðdegis til þess að mæla svæðið í bak og fyrir.

„Það var verið að fara yfir svæðið með dróna frá ríkislögreglustjóra, svo er verið að slökkva í glæðum núna,“ segir Helgi Hjörleifsson hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.

„Vindurinn er aðeins byrjaður að blása, þannig það er verið að vakta svæðið og slökkva í glæðum sem að finnast. Það er einn dælubíll á staðnum frá okkur núna,“ bætir hann við en fjórir slökkviliðsmenn vakta svæðið, og hafa raunar gert í allan dag með vaktaskiptum.

Svæðinu hefur verið líkt við yfirborð tunglsins.
Svæðinu hefur verið líkt við yfirborð tunglsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hreiður hér og þar

Sinubruni á svæðinu, sem er um einn og hálfur kílómetri á lengd og um 100 til 200 metra breitt, hefur brunnið í rúman sólarhring. Erfitt er að athafna sig í hrauninu og bíður slökkvilið eftir að geta slökkt hann að fullu.

Um niðurstöður mælinganna segir Helgi að allt sé með kyrrum kjörum.

„Það eru náttúrulega hitablettir hér og þar, í mosanum og svoleiðis, en það er ekkert þannig séð athugavert.

Svo er mannskapurinn auðvitað að vappa um, og hefur verið að finna hreiður hér og þar sem er verið að slökkva í núna.“

Fjórir slökkviliðsmenn eru á vappinu.
Fjórir slökkviliðsmenn eru á vappinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert