Smit kom upp í Hlíðaskóla

Smit kom upp hjá kennara við Hlíðaskóla.
Smit kom upp hjá kennara við Hlíðaskóla. mbl.is

Á þriðja tug eru í sóttkví eftir að kennari við Hlíðaskóla greindist með kórónuveiruna. 

Aðalheiður Bragadóttir, aðstoðarskólastjóri, segir kennarann kenna 5. bekk við skólann. 19 nemendur hafa verið settir í sóttkví og fimm starfsmenn.  

„Þetta er bekkurinn hans, kennarans, sem eru 19 börn. Við höfum staðið okkur vel í sóttvörnum og miðstigið er alveg sér, það er engin samgangur á milli stiga. Við höfum til dæmis ekki verið að bjóða upp á hádegismat fyrir starfsmenn heldur koma þeir með nesti og salerni eru merkt fyrir starfsmenn svo skólinn er eiginlega alveg í þremur hólfum sem er mjög gott þegar svona kemur upp. Við erum ekki með neina fundi heldur nema á rafrænu formi og kennarar hafa haft leyfi til að fara heim og vinna að kennslu lokinni,“ segir Aðalheiður.  

„Kennarinn hefur umgengist bekkinn sinn og hugað sjálfur vel að sóttvörnum, en hann vann svo náið með tveimur öðrum kennurum í 5. bekk og svo voru þrír starfsmenn sem voru á gráu svæði svo við ákváðum að hafa varann á og þess vegna fara fimm starfsmenn í sóttkví. Við tökum enga áhættu,“ segir Aðalheiður.  

Gert er ráð fyrir að nemendur og starfsmenn fari í sýnatöku næsta þriðjudag, en starfsmaðurinn greindist í gær. 

Vegna foreldraviðtala við skólann missa þeir nemendur sem eru í sóttkví aðeins úr kennslu í 2-3 daga.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert