Erlent

Milljónir borgarbúa í Kína skimaðir á örfáum dögum

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Milljónir íbúa í Kashgar verða skimaðar fyrir veirunni. 
Milljónir íbúa í Kashgar verða skimaðar fyrir veirunni.  Wang Yizhao/Getty Images

Kínversk stjórnvöld ætla enn og aftur að skima heila borg eftir að kórónuveirusmit kom upp. Ráðist var í aðgerðina í borginni Kashgar í Xinjiang héraði eftir að verkakona í fataverksmiðju greindist smituð án þess að sýna nokkur einkenni. Í borginni búa 4,7 milljónir manna en í Xinjiang héraði býr minnihlutahópurinn Úígúrar, sem Kínverjar hafa verið sakaðir um mannréttindabrot gegn.

Öllum skólum í borginni hefur verið lokað og íbúum hefur verið bannað að yfirgefa borgina á meðan á skimuninni stendur. Stjórnvöld segja að þegar hafi 138 smitaðir einstaklingar fundist, sem allir eiga að hafa verið einkennalausir.

Konan sem greindist í fataverksmiðjunni var sú fyrsta sem greindist á meginlandi Kína í tíu daga, en Kínverjum virðist hafa gengið vel að kveða veiruna í kútinn, enda hafa þeir gripið til gríðarlega umfangsmikilla aðgerða þegar veiran hefur skotið upp kollinum, eins og dæmið í Kashgar sýnir glöggt.

Skimunin í Kashgar hófst á laugardag og síðdegis í gær var þegar búið að skima 2,8 milljónir manna og búist er við að skimun verði lokið innan tveggja daga.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×