Reyni að njóta þeirra tækifæra sem ég fæ

Guðrún Arnardóttir fyrir æfingu landsliðsins í morgun.
Guðrún Arnardóttir fyrir æfingu landsliðsins í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Guðrún Arnardóttir er á leið á sitt fyrsta stórmót á ferlinum þar sem hún er einn 23 leikmanna sem taka þátt með íslenska kvennalandsliðinu í knattspyrnu á EM 2022 á Englandi í næsta mánuði.

„Ég er bara rosalega spennt. Stórmótin kvennamegin virðast alltaf vera að stækka og stækka og þetta er rosalega spennandi. Það er algjör heiður að fá að vera í landsliðinu og gera þetta með þeim,“ sagði Guðrún í samtali við mbl.is fyrir æfingu liðsins á Laugardalsvelli í morgun.

Guðrún, sem verður 27 ára í næsta mánuði, leikur með Svíþjóðarmeisturum Rosengård, þaðan sem hún kom frá Djurgården síðastliðið sumar. Hafði hún gengið til liðs við Djurgården frá Breiðabliki í upphafi árs 2019.

Guðrún á 18 A-landsleiki að baki, þar af tíu á síðasta rúma ári. Hún lék sinn fyrsta landsleik árið 2015 en átti lengi vel ekki fast sæti í landsliðshópnum, eða allt þar til Þorsteinn Halldórsson tók við sem landsliðsþjálfari í byrjun síðasta árs.

Finnst ég ennþá vera að vaxa

Hefur hún bætt sig gífurlega á undanförnum árum og unnið sér inn byrjunarliðssæti í landsliðinu.

„Þegar ég fór út til Djurgården þá var þetta svolítið erfitt í byrjun, bæði hjá mér persónulega og liðinu gekk ekkert allt of vel. En svo náði bæði ég og liðið að vinna aðeins betur úr því.

Ég náði að byrja að bæta mig á ýmsum sviðum og svo fékk ég tækifærið til þess að fara yfir í Rosengård sem var gríðarlega gott fyrir mig persónulega. Það er alltaf gaman að berjast um titla og ég held að ég hafi vaxið gríðarlega sem leikmaður þar. M'er finnst ég ennþá vera að vaxa mikið.

Ég kom inn í landsliðið í byrjun síðasta árs, byrjaði að fá tækifæri um haustið, s.s. spiltíma, og ég er ótrúlega þakklát fyrir það. Ég er að reyna að njóta þeirra tækifæra sem ég fæ, því að maður veit aldrei hvernig þetta spilast í fótboltanum. Ég er mjög ánægð með síðastliðið ár eða tvö,“ sagði Guðrún er hún var beðin um að líta aðeins um öxl.

Vilja allir spila

Hún vonast vitanlega til þess að halda byrjunarliðssæti sínu á EM.

„Auðvitað vill maður alltaf spila, ég held að þú getir spurt alla leikmenn í liðinu, það vilja allir spila. Maður er búinn að fá tækifærin en það er alls ekkert gefið.

Maður verður að standa sig og halda sér heilum líka þannig að það eru margir þættir sem spila inn í. Ég auðvitað vonast til þess að fá að spila en það verður allt að koma í ljós,“ sagði Guðrún.

Fínt að fara til Póllands

Íslenska liðið leikur aðeins einn vináttulandsleik í undirbúningi sínum fyrir EM. Aðspurð sagði hún ekki telja að leikmenn væru svekktir með það.

„Nei ekkert svoleiðis held ég. Það hefði náttúrlega verið gaman að fá heimaleik, það hefði kannski verið skemmtilegra, en það er fínt að fara út til Póllands. Við erum með fína dagskrá.

Það eru margar búnar að vera á miðju tímabili, voru bara að spila um síðustu helgi og eru búnar að vera að spila marga leiki þannig að það eru margar sem eru hvort sem er búnar að fá marga leiki.

Við getum alveg verið sáttar þó við fáum bara einn leik. Það er ekkert til að kvarta yfir,“ sagði Guðrún að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert