Leikmenn Chelsea áberandi í markaleik

Timo Werner skoraði eitt og lagði upp annað.
Timo Werner skoraði eitt og lagði upp annað. AFP

Leikmenn Chelsea voru áberandi þegar Þýskaland og Sviss gerðu 3:3-jafntefli í A-deild Þjóðadeildar UEFA í Köln í kvöld. 

Sviss byrjaði með miklum látum og Mario Gavranovic og Remo Freuler komu Svisslendingum í 2:0 á fyrstu 26 mínútunum. Timo Werner framherji Chelsea minnkaði muninn á 28. mínútu og Kai Havertz liðsfélagi hans hjá enska liðinu jafnaði á 55. mínútu. 

Gavranovic kom Sviss yfir með öðru marki sínu á 57. mínútu, en Serge Gnabry leikmaður Evrópumeistara Bayern München jafnaði í 3:3 þremur mínútum síðar eftir stoðsendingu Werner og þar við sat. 

Í sama riðli mættust Úkaína og Spánn í Kíev og unnu heimamenn óvæntan 1:0-sigur. Viktor Tsygankov skoraði sigurmarkið á 76. mínútu. Þrátt fyrir það eru Spánverjar á toppnum með sjö stig, Þýskaland og Úkraína með sex og Sviss á botninum með tvö stig. 

Í 4. riðli D-riðils unnu frændur okkar í Færeyjum 2:0-heimasigur á Andorra. Klæmint Olsen skoraði bæði mörk Færeyinga. Sonni Ragnar Nattisted sem lék með Fylki og FH hér á landi lék allan leikinn, eins og gamli FH-ingurinn Brandur Olsen. Eru Færeyingar með fimm stiga forskot á toppi riðilsins og á góðri leið með að tryggja sér sæti í C-deildinni. 

Úkraína vann óvæntan sigur á Spánverjum.
Úkraína vann óvæntan sigur á Spánverjum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert