Tveir æðstu stjórnendur japanska lyfjafyrirtækisins Kobayashi Pharmaceutical hafa látið af störfum eftir að rannsókn leiddi í ljós að 80 manns gætu hafa látist af vörum fyrirtækisins.
Akihiro Kobayashi, forseti fyrirtækisins, og Kazumasa Kobayashi, stjórnarformaður, hafa þá sagt af sér en þeir eru báðir fjölskyldumeðlimir úr stofnfjölskyldu Kobayashi.
Í mars á þessu ári innkallaði fyrirtækið fimm vörumerki eftir að hafa fengið tilkynningar um nýrnavandamál frá viðskiptavinum. Fyrirtækið hóf þá rannsókn sína eftir að læknar höfðu tilkynnt um heilsuvandamálin í janúar. Þá var einnig neyðarlína opnuð fyrir viðskiptavini.
Í rannsókn Kobayashi Pharmaceutical kom fram að það hefði fundið hugsanlega eitraða sýru sem myndaðist frá myglu í einni af verksmiðjum fyrirtækisins.
„Við viljum enn og aftur biðja viðskiptavini okkar og viðskiptafélaga innilega afsökunar. Stjórn félagsins mun biðja fyrir þeim sem létust og votta syrgjandi fjölskyldum samúðarkveðjur,“ segir í tilkynningu frá félaginu.