City-menn sannfærandi í Marseille - basl á Real

Raheem Sterling fagnar þriðja marki City.
Raheem Sterling fagnar þriðja marki City. AFP

Manchester City vann í kvöld öruggan 3:0-útisigur á Marseille í Meistaradeild Evrópu í fótbolta. Er City með sex stig eftir fyrstu tvo leikina í C-riðlinum. 

Staðan í hálfleik var 1:0, City í vil, en Ferrán Torres skoraði markið á 18. mínútu. Hefur Spánverjinn ungi skorað í báðum Meistaradeildarleikjum sínum með City til þessa. 

Var staðan 1:0 þangað til á 76. mínútu en þá tvöfaldaði Þjóðverjinn Ilkay Gundogan forskot enska liðsins. Raheem Sterling gulltryggði svo öruggan 3:0-sigur á 81. mínútu. 

Í sama riðli hafði Porto betur á móti Olympiacos, 2:0. Fábio Vieira og Sergio Oliveira skoruðu mörk Porto. Ögmundur Kristinsson var ekki í leikmannahópi Olympiacos. 

Real slapp með skrekkinn

Real Madrid var hársbreidd frá öðru tapinu í tveimur leikjum, en liðið rétt bjargaði jafntefli á móti Borussia Mönchengladbach á útivelli. Lokatölur í Þýskalandi urðu 2:2. Marcus Thuram kom þýska liðinu í 2:0 með sínu öðru marki á 58. mínútu, en Real gafst ekki upp og Karim Benzema minnkaði muninn á 87. mínútu áður en Casemiro jafnaði í uppbótartíma og þar við sat. 

Real Madrid og Borussia Möchengladbach áttust við í hörkuleik.
Real Madrid og Borussia Möchengladbach áttust við í hörkuleik. AFP

Shakhtar Donetks er óvænt á toppi B-riðils með fjögur stig, Mönchengladbach er í öðru með tvö, eins og Inter Mílanó í þriðja. Þá er Real Madrid á botninum með eitt stig.

Þá vann Atlético Madrid 3:2-sigur á Salzburg í spennandi leik. Marcos Llorente kom Atlético Madrid í 1:0 á 29. mínútu en þeir Dominik Szoboszlai og Mergim Berisha komu austurríska liðinu í 2:1 með mörkum sitt hvoru megin við hálfleikinn. 

Joao Félix jafnaði í 2:2 á 52. mínútu og Portúgalinn ungi tryggði Atlético sigurinn með marki á 85. mínútu. Bayern München er í toppsæti riðilsins með sex stig og Atlético í öðru með þrjú. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert