Vilja kjósa upp á nýtt um allt land

Björn Leví í ræðustól Alþingis.
Björn Leví í ræðustól Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata sem situr í kjörbréfanefnd fyrir Pírata segist í samtali við mbl.is ekki hafa viljað skrifa undir greinargerð nefndarinnar um málið. Ástæðan sé að hann hafi áhyggjur af því að ákveðnum stjórnsýslulegum formlegheitum hafi ekki verið fylgt í hvívetna. Þá telji Píratar réttast að kjósa aftur á landinu öllu, slík sé stjórnmálakrísan.

„Það eru nokkur atriði sem ég mun fjalla betur um í áliti sem ég birti á fimmtudag hvað varðar þessa ákvörðun að skrifa ekki undir greinargerðina.“

Hann segir erfitt að útskýra áðurnefnd „atriði“ en segir til dæmis að loforðið um að fundir nefndarinnar yrðu opnir hafi ekki staðist, sé dæmi um slíkt „atriði“.

„Þetta eru þó ekki faglegar áhyggjur, það er ég hef ekki áhyggjur af því að nefndin hafi ekki unnið málið faglega. Það eru bara ákveðin formlegheit sem þarf að fylgja sem ég hef áhyggjur af.“

Hann segir þetta að vissu leyti fjalla um „nafnlausa embættismanninn“ og að hann vilji ekki fara nánar út í það hvað hann eigi við með því.

Flokkapólitíkin vefjist ekki fyrir

Björn hefur ekki áhyggjur af því að hagsmunir flokkanna muni vefjast fyrir þingmönnum á fimmtudag.

„Ég sé ekki fyrir mér að lagðar verði fram tillögur sem henti flokkunum. Frekar þá öfugt með farið. Til dæmis virðist sú tillaga sem Sjálfstæðisflokkurinn virðist styðja ekki til þess fallinn að flokkurinn geti grætt á henni.“ Vísar Björn þar til þess að seinni talning verði látin gilda.

Telja best að kosið sé upp á nýtt á landinu öllu.

Spurður hvort einhugur sé meðal þingflokks pírata um ákvörðun hans að skrifa ekki undir greinargerðina og að eina mögulega lausn vandans sé að kjósa aftur á landinu öllu svaraðir Björn: „Já það liggur þannig fyrir okkur. Ekki það að þetta sé einhver lausn, en það er bara ekki mikið annað í boði“.

Verður það s.s. hluti af þinni tillögu að kosið verði upp á nýtt um allt land?

„Já.“

Hann segir samfélagið löngu verið komið inn í stjórnmálalegt krísuástand og að ágallar á kosningum í einu kjördæmi hafi valdið þessum „dómínó áhrifum“ og því séum við stödd á þeim stað sem raunin er nú.

Að lokum bendir hann þó á að „fylgislega séð“ sé þessi tillaga Pírata eflaust ekki sniðug. „þeir sem eru með vesen tapa nú yfirleitt fylgi á því. En rétt skal vera rétt og við metum þetta út frá því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert