Bjarni Bjarnason upplýsti á fundi stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur í dag að hann hyggist láta af störfum forstjóra. Hann lagði fram bókun með ósk um starfslokin, sem stjórn OR samþykkti. Bjarni lætur af störfum í mars og segir í bókun sinni að hann óski eftir starfslokum nú til að gefa stjórninni nægan tíma til að finna eftirmann sinn.

Bókun Bjarna í heild sinni:

Fyrsta mars á næsta ári eru 12 ár liðin síðan ég tók við starfi forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur. Það er vilji minn að láta af starfi forstjóra á þeim tímamótum. Með því að boða starfslok mín með góðum fyrirvara vil ég gefa stjórn OR tækifæri til að hefja leit að eftirmanni, konu eða karli.

Nýtt kjörtímabil er nú hafið og ný stjórn tekur senn við taumunum í Orkuveitu Reykjavíkur. Ný stjórn mun væntanlega hefja vegferðina með stefnumótun fyrir Orkuveitusamstæðuna til næstu ára. Ég tel mikilvægt að hún fái tækifæri til að vinna það verk með eftirmanni mínum. Ég tel því að þetta sé rétti tíminn fyrir mig og fyrir Orkuveitu Reykjavíkur að ég stígi til hliðar. Ég óska því eftir samþykki stjórnar OR fyrir því ferli sem ég hef lýst hér að framan.