Stjórnvöld setji verkefnið í forgang

Höfuðstöðvar Krabbameinsfélagsins.
Höfuðstöðvar Krabbameinsfélagsins. mbl.is/Árni Sæberg

Krabbameinsfélag Íslands hefur skorað á stjórnvöld að leggjast á árar með félaginu og setja uppbyggingu fyrsta flokks framtíðaraðstöðu dagdeildar blóð- og krabbameinslækninga í forgang.

Félagið er tilbúið að leggja til allt að 450 milljónir króna til að bylta aðstöðu deildarinnar af því gefnu að stjórnvöld setji verkefnið í forgang, að því er kemur fram á vefsíðu félagsins.

Þeir sem fá lyfjameðferð við krabbameinum fá hana flestir á dagdeild blóð- og krabbameinslækninga á Landspítala.

Áhyggjur af aðstöðuleysi

Krabbameinsfélagið hefur lengi haft áhyggjur af aðstöðuleysi deildarinnar, og áhrif þess á þá sem fá og veita meðferð, að því er kemur fram á síðunni. Með hækkandi aldri fjölgar krabbameinum og á næstu 20 árum mun komum á dag- og göngudeild fjölga um 40 - 50%.

Félagið hefur kynnt málið fyrir heilbrigðisráðherra, fjármálaráðherra og velferðarnefnd Alþingis og skorar á stjórnvöld að sýna vilja í verki og bregðast skjótt við.

Krabbameinsfélagið hefur sett upp verkefnasíðu til að upplýsa um mikilvægi verkefnisins, þar sem hægt er að kynna sér málið frekar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert